Útilokar ekki að fólk fái aðra bólusetningu

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir útilokar ekki að fólk með lélega mótefnasvörun …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir útilokar ekki að fólk með lélega mótefnasvörun fái aðra bólusetningu mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það ekki útilokað að einstaklingar sem mælast með lélega mótefnasvörun eftir fulla bólusetningu fái meira bóluefni. Hann segir þó ekki tímabært að taka ákvörðun um það en sóttvarnayfirvöld muni vera opin fyrir þessum valmöguleika.

Greint var frá því fyrr í dag að talsverður fjöldi fólks hefði mætt í mótefnamælingu hjá rannsóknarstofu Sameindar eftir að hafa fengið bólusetningu. Miðað við mælingarnar virðast öll bólu­efn­in sem eru í notk­un hér á landi gefa mjög góða svör­un en svör­un­in er sér­stak­lega góð hjá fólki sem hef­ur fengið bólu­setn­ingu með bólu­efni Pfizer ann­ars veg­ar og Moderna hins veg­ar.

Mótefnamælingar ekki beinn mælikvarði á vörn

Þórólfur bendir á að vörnin í ónæmiskerfinu gegn kórónuveirunni sé ekki eingöngu bundin við magnið af mótefnum sem mælist í blóðinu heldur þurfi að líta til mun fleiri þátta.

Skiptir þá einnig máli hvenær mælingin er gerð en það tekur nokkrar vikur fyrir bóluefnið að ná hámarks virkni. Hann varar því fólk við að leggja ekki of mikla túlkun í mótefnamælingar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Janssen-bóluefnið virkar en möguleiki á seinni skammti

Umræða um bóluefni Janssen, sem er í notkun hérlendis, og mögulegar alvarlegar aukaverkanir komst af stað í apríl þegar notkun þess var stöðvuð tímabundið í Bandaríkjunum. Bóluefnið hefur verið tekið aftur í notkun þar í landi en Danir nota ekki bóluefnið og þá mæltu norskir sérfræðingar gegn notkun þess.

Þórólfur segir ekki inni í myndinni að svo stöddu að hætta að nota það efni enda um „fullgilt og fínt“ bóluefni að ræða.

„[Janssen] er bóluefni sem hefur verið rannsakað og virkar vel eftir einn skammt. Það gæti alveg verið að það þurfi að gefa annan skammt en við erum ekki komin það langt að við förum að mæla með því,“ sagði Þórólfur.

 „Við erum náttúrulega að fylgjast með rannsóknum og reynslu að utan og ef það sýnir sig að einn skammtur af Jansen bóluefninu sé ekki að duga nógu vel þá munum við svo sannarlega mæla með öðrum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert