35% kjötneyslu verði stofnfrumuræktað kjöt

Verður hamborgari framtíðarinnar ræktaður með stofnfrumum?
Verður hamborgari framtíðarinnar ræktaður með stofnfrumum? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talið er að árið 2040 muni um 35% af kjötneyslu mannskyns verða stofnfrumuræktað kjöt. Þessi nýja framleiðslutækni gæti dregið verulega úr þeim umhverfisvanda sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir. 

Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Dr. Björns Örvars, meðstofnanda ORF Líftækni, á viðburði fyrirtækisins á Nýsköpunarvikunni sem nú stendur yfir.

ORF Líftækni er meðal um 70 fyrirtækja um allan heim sem vinna að því að þróa þessa nýju tækni. 

Fáist á veitingastöðum á næsta ári

Miklar framfarir hafa orðið í ræktun kjöts á skömmum tíma og fjárfestingar á þessu sviði hafa margfaldast á fáum árum.

Björn segir að búast megi við að strax á næsta ári verði hægt að panta stofnfrumuræktað kjöt á dýrum veitingastöðum. Í kjölfarið muni það fást í sérverslunum og loks í hefðbundnum matvöruverslunum.

Í kringum árið 2030 megi gera ráð fyrir að stofnfrumuræktað kjöt verði orðið samkeppnishæft við hefðbundið kjöt í verði.

Dr. Björn Örvar er einn af stofnendum ORF Líftækni.
Dr. Björn Örvar er einn af stofnendum ORF Líftækni.

Eftirspurn lofi góðu

Í Bandaríkjunum og Bretlandi sögðust 40 prósent þátttakenda nýlegrar könnunar mjög líklegir til að vilja borða slíkt kjöt og önnur 40 prósent sögðu að þau myndu hugleiða það. Þá bendi niðurstöður til þess að yngri kynslóðin sé opnari fyrir slíkum möguleika en þeir sem eldri eru.

Fyrsti stofnfrumuræktaði hamborgarinn leit dagsins ljós árið 2013. Tæknin hefur verið á þróunarstigi undanfarin ár en gert er ráð fyrir að uppskölun hefjist á næsta ári hjá þeim fyrirtækjum sem fremst standa. 

Fyrirtækið Mosa Meat í Hollandi, sem framleiddi umræddan hamborgara, stefnir til að mynda á að framleiða um 2 milljónir tonna af ræktuðu nautakjöti árlega árið 2030. 

Rækta kjöt, fisk, mjólk og leður

Meirihluti fyrirtækja á þessu sviði er að þróa framleiðslu á nautakjöti, svínakjöti eða kjúkling. Þó eru nokkur að þróa fiskframleiðslu og mólkurframleiðslu, þá ýmist á móðurmjólk eða kúamjólk. Enn önnur eru í leðurframleiðslu.

Samkvæmt Birni hóf ORF Líftækni innreið á þetta svið fyrir um tveimur árum síðan, en fyrirtækið hefur framleitt frumuvaka fyrir stofnfrumurannsóknir í öðrum tilgangi í nokkurn tíma. Fyrirtækið ræktar byggplöntur og nýtir erfðatækni til að framleiða úr þeim nauðsynleg prótein fyrir stofnfrumurræktun.

Andaktugar kýr í Víðidal.
Andaktugar kýr í Víðidal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vefjasýni úr 150 kúm myndu duga 

Til þess að framleiða stofnfrumuræktað kjöt er ýmist tekið vefjasýni úr dýri eða nýttar fósturfrumur sem hægt er að nota endurtekið. Stofnfrumur eru einangraðar úr sýninu og frumuvakar nýttir til framleiðslu á kjöti.

Björn bendir á að með einu vefjasýni teknu úr kú væri hægt að framleiða 175 milljón hamborgara, sem í dag þarfnast 440 þúsund kúa. Hægt væri að framleiða allt nautakjöt sem borðað er í heiminum í dag með vefjasýnum úr aðeins 150 kúm. 

Bylting fyrir umhverfið

Björn segir að stofnfrumuræktun á kjöti sé mikilvægur liður í aðgerðum gegn umhverfisáhrifum. Hefðbundin kjötræktun sé ósjálfbær og valdi 14,5 prósent af losun gróðurhústegunda jarðar. Þá sé fyrirséð að kjötneysla muni aukast á næstu árum, einkum vegna aukinnar kjötneyslu í Asíu og Afríku og vegna fólksfjölgunar.

Sýnt hafi verið fram á að stofnfrumuræktað kjöt nýti 85-98 prósent minna land undir ræktun og losi 78-96 prósent minna af gróðurhúsalofttegundum en hefðbundin kjötræktun. Framleiðslan krefjist auk þess mun minna vatns en sú hefðbundna. Þá sé ónefnt að ekki þurfi að slátra dýrum við framleiðsluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert