Dúx talaði ekki eitt orð í íslensku í 8. bekk

Anamaria Lorena Hagiu útskrifaðist með glæsibrag úr Verkmenntaskólanum á Akureyri …
Anamaria Lorena Hagiu útskrifaðist með glæsibrag úr Verkmenntaskólanum á Akureyri um helgina. Ljósmynd/VMA

Anamaria Lorena Hagiu flutti til Íslands frá Rúmeníu og hóf nám í 8. bekk í grunnskóla Raufarhafnar haustið 2016. Lorena, eins og hún er alltaf kölluð, talaði á þeim tíma ekki stakt orð í íslensku. Hún gerði sér lítið fyrir og dúxaði Verkmenntaskólann á Akureyri  þegar hún útskrifaðist um síðustu helgi. 

131 nemandi brautskráðist frá Verkmenntaskólanum í vor af 16 námsleiðum. Lorena útskrifaðist af hönnunar- og myndlistabraut og hlaut verðlaun fyrir bestan árangur í myndlistagreinum, verðlaun fyrir árangur í spænsku ásamt því að vera dúx skólans. 

„Mér fannst pínu erfitt að byrja í menntaskóla vegna þess að ég talaði ekki mikla íslensku. Ég byrjaði í núll-áfanga í íslensku sem var auðveldur og líkur því sem ég hafði lært á Raufarhöfn,“ segir Lorena í samtali við mbl.is. 

Enn er ekki alveg laust við grímurnar á útskriftarathöfnum. 131 …
Enn er ekki alveg laust við grímurnar á útskriftarathöfnum. 131 nemandi brautskráðist frá VMA um helgina. Ljósmynd/VMA

Hún segir kennara VMA tekið vel á móti sér og sýnt sér skilning og sveigjanleika. Hún hafi líka eignast góða vini í skólanum og það hafi hjálpað henni.

Seinni árin í VMA tók Lorena erfiðari íslensku með samnemendum sínum og lærði til að mynda miðaldabókmenntir og málfræði. 

Grunnurinn á Raufarhöfn hjálpaði 

„Þegar ég var á Raufarhöfn var mér hjálpað mikið við að læra grunninn í íslensku. Þegar ég kom svo í menntaskóla kláraði ég að læra grunninn og var tilbúin í að snúa mér að aðeins flóknari málfræði og íslensku,“ segir Lorena. 

Lorena kveðst alltaf hafa verið sterkur námsmaður. „Mig langar bara að læra og læra. Mér finnst mjög gaman í skóla.“

Hún segir skilaboð sín til þeirra sem eru í svipuðum sporum og hún þegar hún kom til Íslands vera að lesa mikið og hika ekki við að tala íslensku.

„Íslenska er ekki auðveld, en ef þú veitir henni athygli og hellir þér í hana, reynir að lesa og tala við fólk er auðveldara að ná utan um hana,“ segir Lorena.

Í sumar ætlar Lorena að vinna í lystigarðinum á Akureyri og skoða háskóla sem bjóða upp á dýralækningar í Rúmeníu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert