Ekki talið að njósnað hafi verið um Íslendinga

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert bendir til þess að njósnað hafi verið um Íslendinga, í njósnum sem danska leyniþjónustan hafði milligöngu um í þágu Bandaríkjamanna. Málið er samt ennþá til skoðunar utanríkisráðuneytisins, eins og segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ræddi við Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, í síma nú síðdegis og kom hann á framfæri áhyggjum íslenskra stjórnvalda á þeim uppljóstrunum sem nýlega voru gerðar. 

Danska ríkisútvarpið upplýsti nýlega um að bandarísk leyniþjónustustofnanir höfðu njósnað um hátt setta embættismenn í Noregi, Svíþjóð, Frakklandi og Þýskalandi. Þeirra á meðal var Angela Merkel Þýskalandskanslari. 

Í svari utanríkisráðuneytisins segir jafnframt að starfsmenn ráðuneytisins hefðu rætt við fulltrúa bandaríska sendiráðsins hér á landi og voru þar áhyggjur íslenskra stjórnvalda vegna málsins áréttaðar og farið fram að upplýst yrði hvort málið varðaði íslenska hagsmuni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert