Reykjavíkurborg telur brýnt að snúa við þróun um lækkun hlutfalls skráðra hunda til að hægt sé að standa undir nauðsynlegu hundaeftirliti í borginni.
Í því skyni samþykkti borgarstjórn á fundi sínum í gær tillögu borgarstjóra um að lækka gjaldskrá fyrir hundahald. Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára.
Gjald fyrir nýskráningu hunds mun við breytingarnar lækka úr 20.800 krónum í tvö þúsund krónur. Þá er hægt að fá 50 prósent afslátt af árlegu hundaeftirlitsgjaldi séu ákveðin skilyrði uppfyllt, það er að hundurinn hafi lokið hlýðninámskeiðum.
Reykjavíkurborg hvetur alla eigendur hunda til að skrá þá. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.