Handahófskennd bólusetning heldur áfram

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir með pottinn sem árgangar kvenna annars vegar …
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir með pottinn sem árgangar kvenna annars vegar og karla hins vegar eru dregnir úr. mbl.is/Kristinn Magnússon

Árgangarnir fimm sem voru dregnir út í handahófskennda bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll í gær hafa verið boðaðir í bólusetningu í dag, þ.e. þeir einstaklingar innan árganganna sem ekki komust í bólusetningu í gær. Í dag verður bólusett með bóluefni Moderna.

Einnig mun seinni bólusetning fólks sem fékk bóluefni Moderna fyrir nokkrum vikum fara fram sem og bólusetning fólks í forgangshópum sem hefur ekki mætt í bólusetningu hingað til. 

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að mun færri hafi mætt í bólusetningu í gær en vonast var til og þess vegna hafi verið gripið til þess ráðs að boða fólk í handahófskennda bólusetningu. 10.000 voru upphaflega boðaðir í bólusetningu en einungis 5.000 mættu. 

Voru á nippinu með að ná að klára efnið

Klára þarf skammta af blönduðu bóluefni Pfizer sama dag og það er blandað og því lá á að klára bóluefnið. Það tókst, en þó ekki fyrr en um klukkan sjö um kvöldið. 

„Við þurftum að boða svolítið vel til þess að ná að klára efnið, það var pínu svona stress að ná að klára á tilsettum tíma,“ segir Ragnheiður.

„Síðasti séns var þarna rétt fyrir sjö og það hafðist akkúrat. Við vorum alveg á nippinu með að klára þetta.“ 

Frá bólusetningu í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólíklegt að fleiri verði dregnir út í dag

Fyrst voru karlar sem fæddir eru árið 1999 dregnir út ásamt konum sem fæddar eru 1982. Svo voru konur sem fæddar eru árið 1996 dregnar út og karlar sem fæddir eru árið 1987. Að lokum voru konur sem fæddar eru 1983 dregnar út. Allir þessir hópar hafa verið boðaðir aftur í bólusetningu í dag, þ.e. þeir einstaklingar innan hópanna sem ekki fengu bólusetningu í gær. 

„Þetta er svipaður dagur í dag, við erum að reyna að klára alla í forgangshópum sex og sjö. Við reiknum með að það verði þá svipuð mæting í dag eins og var í gær þannig að við eigum þá auka skammta. Þess vegna ætlum við að boða þessa árganga aftur og vonandi náum við að klára þá í dag,“ segir Ragnheiður.

Hún á síður von á því að fleiri árgangar verði dregnir út í dag. 

„Vegna þess að við ætlum að klára þessa árganga sem við boðuðum í gær. Vonandi mæta allir vel vegna þess að það eru ansi margir boðaðir í dag.“

Vika til eða frá skiptir ekki máli – biður fólk um að sýna biðlund

Enn er mikið um að fólk hafi samband við heilsugæsluna til þess að fá að komast framar í bólusetningarröðina. Ragnheiður biður fólk um að sýna biðlund. 

„Það er rosalega mikið álag á öllum heilsugæslustöðvum. Það er mikill fjöldi sem hefur samband inni á Heilsuveru og alls staðar að kanna hvort þeir komist fyrr að í bólusetningu. Núna erum við að leggja áherslu á að reyna að bólusetja sem flesta í júní. Við erum að biðla til fólks að sýna biðlund núna í júní. Það eru margir að komast að og það skiptir ekki máli vika til eða frá, við biðjum um smá grið í að hafa samband við okkur,“ segir Ragnheiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert