Harma sleggjudóma um atvinnuleitendur

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/mbl.is

Miðstjórn ASÍ harmar sleggjudóma í opinberri umræðu um málefni atvinnuleitenda. Þau dæmi sem fjölmiðlar hafa fjallað um heyri til undantekninga og ekki hafi komið fram fullnægjandi skýringar á þeim. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ. 

Tilefnið er umfjöllun um erfiðleika atvinnurekenda við að fá fólk til starfa af atvinnuleysisskrá. Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, sagði í samtali við Bítið á Bylgjunni í vikunni að „galið“ væri hve erfitt það væri að ráða inn nýtt starfsfólk og kallaði eftir auknu eftirliti með þeim sem þiggja atvinnuleysisbætur.

„Við höfum mjög miklar áhyggjur af umræðunni sem hefur verið undanfarna daga, hún hefur verið mjög einhliða. Það hefur ekki verið talað við atvinnuleitendur og umræðan um að það sé erfitt að fá fólk í vinnu er ekki byggð á gögnum,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.  

Lágmarkslaun ekki ástæða

Drífa segir að ástæður þess að einhver fyrirtæki gætu átt erfitt með að fá fólk til starfa af atvinnuleysisskrá geti verið margvíslegar.

„Við vitum að aðstæður fólks geta verið mjög mismunandi, það þýðir til dæmis lítið að bjóða einstæðum mæðrum vaktavinnu eða ætlast til þess að fólk flytji landshluta á milli með þeim tilkostnaði sem það er.“

„Það getur verið vinnutíminn, staðsetningin, hraðinn á ráðningum og svo framvegis. Við förum náttúrulega fram á að atvinnuleitendum sé sýndur ákveðinn skilningur og að vandað sé til verka við ráðningar. Það er engum greiði gerður með því að fara á fullt í einhverjar ráðningar sem eru kannski ekki heppilegar, fólk stoppar stutt við og svo framvegis,“ segir Drífa.

Aðspurð hvort lítill munur á lágmarkslaunum og atvinnuleysisbótum gæti gert það að verkum að fólk sem þiggur atvinnuleysisbætur vilji ekki taka störf sem borga lágmarkslaun segir Drífa það ekki vera svo.  

„Það eru allir að taka skerðingu við það að fara á atvinnuleysisbætur. Þannig að ég held að þessi botnlausi hvati sem er verið að tala um, við erum með 20 þúsund manns atvinnulausa hér á Íslandi, eða vorum. Það eru ekki 20 þúsund manns sem vilja vera atvinnulausir á Íslandi. Ég bara fullyrði það. Á öðrum atvinnuleysistímabilum hefur munurinn á milli lágmarkslauna og atvinnuleysisbóta verið miklu minni. Þannig að það í sjálfu sér er ekki ástæða.“

Lýsa áhyggjum af verri kjörum í ferðaþjónustu

Í tilkynningu ASÍ kemur fram að skýr merki séu um að einstaka atvinnurekendur í ferðaþjónustu ætli að hefja rekstur á ný með því að þrýsta niður launum starfsfólks.

„Við höfum pata af því að það sé verið að bjóða fólki svokallaða gerviverktöku í staðinn fyrir að taka það inn á launaskrá, í auknum mæli. Það er eitthvað sem við höfum áhyggjur af, í leiðsögubransanum til dæmis.“

„Það er náttúrulega aukin ábyrgð á fyrirtæki af því að það er í rauninni verið að koma ferðaþjónustunni af stað að einhverju leyti á ríkisstyrkjum, það setur náttúrulega aukna ábyrgð á fyrirtækin að gera þetta almennilega gagnvart starfsfólki. Af því að við almenningur erum að greiða þennan startkostnað að einhverju leyti,“ segir Drífa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert