Héraðsdómur hafnar frávísunarkröfu MS

Ólafur Magnússon.
Ólafur Magnússon. mbl.is/Eyþór Árnason

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði frávísunarkröfu Mjólkursamsölunnar varðandi skaðabótakröfu Ólafs M. Magnússonar eiganda Mjólku I í dag. MS taldi skaðabótakröfu Ólafs hafa fyrnst fyrir nokkrum árum síðan.

MS áður gert að greiða 480 milljónir í sekt

Fyrr á árinu staðfesti Hæstiréttur dóm Landsréttar um 480 milljón króna sekt MS fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu. MS var þá gert að sök að hafa selt hrámjólk til keppinauta sinna á mun hærra verði en MS sjálft tengdir aðilar þurftu að greiða fyrir sömu vöru. Samkeppniseftirlitið sektaði MS fyrir þetta en sú sekt rennur í ríkissjóð. 

Ólafur hefur nú uppi skaðabótakröfu á hendur MS, krafan varðar þessa misnotkun á markaðsráðandi stöðu og lögmenn Ólafs segja þessa sektarákvörðun og staðfestingu hennar bótagrundvöll málsins. Því var einnig haldið fram að MS hafi hægt á gangi málsins og hindrað framgang þess með því að leyna ýmsum gögnum.

Ólafur segir í samtali við mbl.is að töluverðar fjárhæðir séu í spilinu. Matsmenn þurfi líklegast að meta fjárhæðirnar nákvæmlega en hann áætli að Mjólka hafi greitt 1.500 milljón krónum meira fyrir hrámjólk en tengdir aðilar hefðu greitt fyrir sama magn og vísar þar til skoðunar Samkeppniseftirlitsins.

MS lagði fram frávísunarkröfu á grundvelli þess að Ólafur hefði ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins þar sem bótakrafan væri fyrnd. Þar var rökstutt að forsvarsmenn Mjólku hefðu fyrst geta vitað af mögulegu broti MS annað hvort 2012 eða 2013. Þar sem fyrningarfrestur skaðabótakrafna er fjögur ár ætti fresturinn að hafa fyrnst 2017.

Efnislegur ágreiningur um fyrningu

Úrskurður héraðsdóms um frávísunarkröfuna var kveðinn upp í dag. Í úrskurðinum segir að að efnislegur ágreiningur sé uppi um upphafstíma fyrningar og afleiðingar þeirra dóma sem fallið hafa í máli MS gegn Samkeppniseftirlitinu. Því væri ekki tímabært að taka afstöðu til þess hvort hinar meintu fjárkröfur Ólafs væru fyrndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert