Unnið er að undirbúningi lagningar nýs vegar að Brúarfossi og gerð bílastæðis þar. Leiðin verður vestan við ána í landi jarðanna Efsta-Dals og Hlauptungu og bílastæðið í landi síðarnefndu jarðarinnar. Vonast er til að aðstaðan verði tilbúin fyrir næsta vor.
„Móðir mín, Jóna Bryndís Gestsdóttir, á Hlauptungu sem var skipt úr landi Efstadals 1. Hún hefur áformað að byggja þar hús yfir sig,“ segir Rúnar Gunnarsson, bóndi á Efri-Reykjum, sem stendur fyrir lagningu nýju leiðarinnar. Hann segir að það hafi þótt upplagt að leggja leiðina að fossinum samhliða þeim áformum.
Efri-Reykir eru austan við Brúará og landeigendur þar létu gera bílastæði við þjóðveginn og lagfæra gönguleið upp með ánni að Brúarfossi. Hefur hann verið mikið notaður, jafnvel svo landeigendum ofar með ánni hefur þótt nóg um. Vonast Rúnar til þess að með nýrri leið vestan við ána dragi úr umferðinni um göngustíginn.
Rúnar hefur kynnt áform sín fyrir Skipulagsstofnun sem hefur fallist á að ekki þurfi að gera mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Raunar tekur sú ákvörðun aðeins til þess hluta leiðarinnar sem fer um land Hlauptungu en þar þverar vegslóðinn sem farið verður eftir Kóngsveginn svokallaða. Hann liggur á milli Reykjavíkur og Gullfoss og var lagður fyrir Íslandsheimsókn Friðriks áttunda Danakonungs árið 1907. Nýtur vegurinn hverfisverndar. Þannig háttar til á þessum stað að Kóngsvegurinn liggur um mel, er slitróttur og varla sýnilegur. Minjastofnun og Skipulagsstofnun gerðu ekki athugasemdir við að Kóngsvegurinn yrði þveraður þarna. Einnig verður um einum hektara birkiskógar raskað vegna framkvæmdarinnar en Skipulagsstofnun bendir á að það taki aðeins til um 1% af skóginum.
Rúnar segir að sækja þurfi um framkvæmdaleyfi til sveitarfélagsins og unnið sé að því. Einnig þurfi eigendur Efstadals 1 og Hlauptungu að sækja sameiginlega um lagningu hluta leiðarinnar þar sem hún liggi um sameiginlegt land. Það sé einfaldari framkvæmd og ætti ekki að vefjast fyrir yfirvöldum.
Rúnar hyggst hefja framkvæmdir í sumar og vonast til að vegurinn verði tilbúinn fyrir næsta vor ásamt bílastæði, jafnvel fyrr. Hann reiknar með að tekið verði gjald fyrir notkun bílastæðisins til að standa undir kostnaði við framkvæmdina.
„Þessi leið er hugsuð fyrir þá sem vilja fara í snögga heimsókn að Brúarfossi og spara sér sporin. Þeir sem vilja nýta gönguleiðina austan við ána og bílastæðið þar geta gert það án endurgjalds. Menn munu hafa þetta val,“ segir Rúnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. maí.