Landverðir leggja hönd á plóg

Landverðir frá Umhverfisstofnun munu standa vaktina við eldgosið í Geldingadal …
Landverðir frá Umhverfisstofnun munu standa vaktina við eldgosið í Geldingadal til aðstoðar björgunarsveitanna, frá og með deginum í dag. Mynd úr safni. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Landverðir frá Umhverfisstofnun munu standa vaktina í Geldingadölum frá og með deginum í dag og létta þannig undir með björgunarsveitamönnum sem sinnt hafa gæslu á svæðinu fram að þessu. Mikil aðsókn hefur verið í Geldingadali eftir að gosið hófst, eins og sjá má á gögnum Ferðamálastofu, og álag á bæði björgunarsveitamenn- og konur eftir því.

René Biasone, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun Suðvesturlands telur viðveru landvarða á svæðinu geta komið viðbragðsaðilum vel. Allir landverðir stofnunarinnar hafi öðlast sérstök réttindi til þess að starfa sem slíkir og hafa setið setið námskeið í fyrstu hjálp.

„Að sjálfsögðu erum við sjálf ekki viðbragðsaðilar og höfum ekki heimild til að stíga inn í hlutverk þeirra en við verðum á svæðinu þeim til aðstoðar. Ég trúi því að við getum gert góða hluti,“ segir René.

Hlutverk landvarða margþætt

Hlutverk landvarða eru margþætt en þau eru m.a. móttaka og fræðsla, náttúrutúlkun, náttúruvernd og eftirlit, eins og kemur fram á vef Umhverfisstofnunar.

Að sögn René munu landverðir í Geldingadölum bæði aðstoða göngumenn og viðbragðsaðila á svæðinu en einnig gæta þess að ákvæði friðlýsingar og náttúruverndarlaga séu virt.

„Hlutverk okkar er að vera gestum innan handar og að upplýsa þá bæði við upphaf gönguleiðarinnar, á leiðinni upp og á leiðinni niður. Við erum svo með Tetra-talstöðvar til að geta verið í beinu sambandi við viðbragðsaðila ef eitthvað kemur upp á. Einnig erum við með gasmæli sem segir til um gasmengun á svæðinu. Við getum svo komið með tillögur um úrbætur á svæðinu er varða gönguleiðir og gróðurskemmdir sem dæmi,“ segir hann.

Dýrmæt reynsla

Samkvæmt René er viðvera landvarðanna ákveðin í samræmi við teljara Ferðamálastofu, sem segir til um fjölda gesta á svæðinu. Átta landverðir munu skiptast á að sinna vörslu á svæðinu og verða þá tveir og tveir saman, ýmist á dag- eða kvöldvöktum.

„Við verðum á staðnum á þeim tíma dagsins sem flestir gestir eru að koma. Í sumar er svo von á erlendum gestum en þeir hafa vanalega verið að mæta frekar snemma á svæðið. Það eru ekki margir gestir sem dvelja á svæðinu langt fram eftir kvöldi og eru flestir búnir að labba til baka um níu á kvöldin. Með því að vera með okkar fólk á svæðinu til átta á kvöldin teljum við okkur vera að ná um 80-85% þeirra gesta sem koma á svæðið. Að sjálfsögðu er svo alltaf eitthvað fólk sem er að fara um miðjar nætur en landverðir sinna vanalega ekki næturvörslu,“ segir René.

Að sögn René hafa flestir þeirra landvarða, sem standa munu vaktina í Geldingadölum, reynslu af landvörslu á öðrum landssvæðum. Hann segir dýrmætt að fá reynslumikið fólk með í verkefni af þessu tagi.

„Það hjálpar okkur að byggja upp þessa starfsemi sem er glæný. Við munum tímabundið fá til okkar reynslumikinn landvörð sem starfað hefur í Vatnajökulsþjóðgarði og sinnti landvörslu við Holuhraun á sínum tíma. Það er mjög jákvætt að fá hann með okkur í þetta.“

Einstakt tækifæri

René segir landverðina spennta fyrir verkefninu enda ekki oft á lífsleiðinni sem þeim býðst tækifæri til að sinna landvörslu á virku eldgosasvæði. Eðli verkefnisins krefjist þó mikils sveigjanleika af þeirra hálfu.

„Þetta svæði er í mikilli mótun og því er mjög mikilvægt að bæði landverðir og viðbragðsaðilar geti verið sveigjanlegir. Við þurfum að vera viðbúin því að takast á við ný verkefni og mögulega breyta starfssemi okkar eitthvað í sumar,“ segir hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka