Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti verkefnum af margvíslegum toga í gærkvöldi og í nótt. Talsvert var um kvartanir vegna hávaða frá heimahúsum og lofuðu húsráðendur að lækka eftir að hafa fengið tiltal frá lögreglu.
Á fjórða tímanum í nótt barst lögreglu tilkynning um blóðugan og illa farinn mann í Kópavoginum (hverfi 201) en lögregla fann ekki manninn þrátt fyrir töluverða leit. Aftur á móti handtók lögreglan mann í annarlegu ástandi í Austurbænum (hverfi 105) í nótt vegna húsbrots og vopnalagabrots og gistir hann fangageymslu sökum ástands.
Á einum og hálfum klukkutíma í nótt bárust lögreglu fjórar tilkynningar um hávaða frá heimahúsum (í hverfi 105, 109, 112 og 201) og í öllum tilvikum lofuðu húsráðendur að lækka.
Lögreglan fékk tilkynningu um unglingapartý í Árbænum á tólfta tímanum í gærkvöldi og var málið leyst með aðkomu foreldra og tilkynningu til barnaverndar.
Í nótt var síðan tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í Breiðholtinu (hverfi 109), að þar væri maður að ganga á bifreiðar og reyna að opna þær en eftirgrennslan lögreglu bar ekki árangur.
Brotist var inn í Austurbænum (hverfi 105) í gærkvöldi en samkvæmt dagbók lögreglu er ekki vitað hverju var stolið. Einn ökumaður var stöðvaður í Austurbænum (hverfi 108) grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku og síðan aðstoðaði lögreglan mann í annarlegu ástandi í Grafarvoginum við að komast til síns heima.