Mun færri frá Póllandi nú en áður

Sóttvarnarhús í Þórunartúni.
Sóttvarnarhús í Þórunartúni. mbl.is/Árni Sæberg

Enn eru fjölmargir ferðamenn sem kjósa að dvelja í sóttvarnahúsum Rauða kross Íslands, þrátt fyrir að breytt reglugerð skyldi ekki lengur nokkurn mann til þess. Segja má að dagurinn í gær hafi verið fyrsti „stóri dagurinn“ síðan reglurnar breyttust, en þá komu til landsins einar 17 vélar. 

„Það komu 62 gestir hérna til okkar í gær, þannig að það hefur aðeins minnkað en þó ekki mikið,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahúsa Rauða krossins. 

Eins og sakir standa eru 320 gestir í sóttvarnahúsi í Þórunnartúni og í sóttvarnahúsi á Egilsstöðum eru 25.

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins.
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins. mbl.is/Sigurður Bogi

Færri og færri frá Póllandi

Hann segir einnig að mikið hafi breyst hvað varðar vélar sem koma hingað til lands frá Póllandi. Fyrir skömmu þurftu farþegar frá Póllandi í sóttvarnahús, sem hefur nú breyst eins og fyrr segir. Eftir breytinguna kjósa sífellt fleiri komufarþegar frá Póllandi að dvelja í sóttkví annars staðar.

Aðeins sex farþegar, úr tveimur vélum sem komu frá Póllandi í gær, kusu að dvelja í sóttvarnahúsi. Það má því teljast líklegt að margir þeir farþegar sem koma frá Póllandi hafi búsetu hér á landi, og þar með húsnæði til ráðstöfunar.

„Það má einmitt búast við því, já,“ segir Gylfi um það en bætir við að erfitt sé þó að fullyrða um slíkt. 

Tólf vélar í dag

Gylfi Þór segir að í dag lendi tólf vélar á Keflavíkurflugvelli, þar af eru sex lentar, allar frá Bandaríkjunum. Þaðan koma nær einungis bólusettir farþegar sem kjósa afar sjaldan að dvelja í sóttvarnahúsi. 

Hins vegar eru vélar væntanlegar frá bæði Frankfurt og Amsterdam, en það eru áfangastaðir hvaðan margir kjósa að dvelja í sóttvarnahúsi. Einnig koma í dag vélar frá Kaupmannahöfn, París, London og Tenerife. Frá Tenerife koma gjarnan nær einungis Íslendingar og því hafa flestir þeirra húsnæði hér á landi til að nota í sóttkví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert