Njósnir Dana ekki til rannsóknar hér á landi

Njósnir dönsku leynisþjónustunnar eru ekki til formlegrar rannsóknar embættis ríkislögreglustjóra. …
Njósnir dönsku leynisþjónustunnar eru ekki til formlegrar rannsóknar embættis ríkislögreglustjóra. Ríkislögreglustjórinn merkið á húsinu að utann mbl.is/Árni Sæberg

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, mun ræða við Tine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, á næstu dögum, um njósnir Dana í þágu Bandaríkjamanna.

Þetta segir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, við mbl.is.

Í ljós kom nýverið að danska leyniþjónustan hafði milligöngu um njósnir Bandaríkjamanna, meðal annars um Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Walter Steinmeier forseta Þýskalands. 

Guðlaugur sagði við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í gær að nú væri beðið svara við fyrirspurnum sem utanríkisráðuneytið sendi dönskum yfirvöldum. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, mun á næstu dögum …
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, mun á næstu dögum ræða við varnarmálaráðherra Danmerkur, um njósnir dönsku leyniþjónustunnar og þá hvort þær hafi beinst að íslenskum ráðamönnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki á borði ríkislögreglustjóra

Svör við slíkum fyrirspurnum myndu svo án efa skapa forsendur til þess að greiningardeild ríkislögreglustjóra færi af stað með rannsókn á málinu, þ.e. hvort njósnað hafi verið um íslenska embættis- og ráðamenn.

Það er enda greiningardeildin sem tæki slíka rannsókn að sér, en í samtali við mbl.is segir Runólfur Þórhallsson yfirlögregluþjónn að deildin sé ekki með neitt þessu tengdu til formlegrar rannsóknar. Aðeins væri fylgst með fréttum af málinu, þá með óformlegum hætti.

„Við höfum bara fylgst með þessu máli síðan það kom upp síðastliðið haust,“ segir Runólfur við mbl.is. 

Hvað felst í því, er málið til formlegrar rannsóknar af ykkar hálfu?

„Nei, við höfum bara reynt að safna þeim upplýsingum sem hægt er. Við höfum í raun bara fylgst með fréttum af þessu máli.“

Þar að auki segir Runólfur að greiningardeild ríkislögreglustjóra hafi rætt málið við CERT-IS, netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, um málið með óformlegum hætti. 

Það staðfestir Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður CERT-IS, við mbl.is og segir hann einnig að sveitin sé ekki formlega viðloðin þær rannsóknir sem fram fara alla jafna um þessi mál. Viðræður við dönsk stjórnvöld séu algjörlega á forræði utanríkisráðuneytisins. Hins vegar sé netöryggissveitin boðin og búin til þess að aðstoða við tæknilega þætti þeirrar rannsóknar sem færi fram, komi yfir höfuð til hennar.

Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðurmaður CERT-IS, netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunnar.
Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðurmaður CERT-IS, netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunnar. Ljósmynd/Póst- og fjarskiptastofnun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert