Ný bifreið fyrir tilstilli almennings

Frá vígslu bifreiðarinnar í dag.
Frá vígslu bifreiðarinnar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frú Ragnheiður vígði nýja bifreið í dag. Bifreiðin verður nýtt til að þjónusta skólastæðinga Frú Ragnheiðar en sú eldri var komin til ára sinna. Frú Ragnheiður er verkefni á vegum Rauða krossins og byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar í vinnu með einstaklingum sem glíma við vímuefnavanda.

„Þetta mun auðvitað skipta miklu máli fyrir þetta mikilvæga verkefni. Við erum komin þarna á glænýjan bíl sem er töluverð breyting frá þeim eldri, hann kemur beint úr kassanum og sérinnréttaður fyrir þjónustuna sem frú Ragnheiður veitir," segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Notendur gátu komið með ábendingar

„Nýja bifreiðin skýtur sterkari stoðum undir verkefnið og veitir meira öryggi fyrir okkar sjálfboðaliða og notendur þjónustunnar, að það sé alveg öruggt að bíllinn hreinlega bara komist í gang og komist vel á milli staða," segir Gunnlaugur. 

Hann segir að notendur þjónustunnar hafi tekið þátt í ferlinu að innrétta bílinn. 

„Innréttingar og þróun á bílnum var unnin í nánu samstarfi við notendur þannig að þeir gátu komið með sínar ábendingar um hvað myndi gagnast best. Reyndar var gaman að heyra að þeir vildu helst ekki breyta miklu, fannst þetta bara vera svo gott eins og það var."

Inni í nýju bifreiðinni.
Inni í nýju bifreiðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Almenningur safnaði fyrir bílnum

„Við tókum þennan bíl í notkun í dag algjörlega þökk sé einstaklingum og félagasamtökum,“ segir Gunnlaugur.

„Við bjóðum upp á það á vefsíðunni okkar að fólk getur stofnað þar safnanir fyrir eitt og annað. Þar fór í gang söfnun fyrir nýjum bíl þar sem almenningur var okkur mjög velviljaður og lagði sitt af mörkum og svo komu þarna inn önnur frjáls félagasamtök sem lögðu okkur líka lið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert