„Ég er nokkuð viss um að það er mjög mismunandi ónæmissvarið við bóluefnum almennt. Sú fjölbreytni liggur meira í manneskjunni sem er bólusett heldur en í bóluefninu sem er notað,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í samtali við mbl.is.
Greint var frá því á mbl.is í gær að talsverður fjöldi fólks sækir í mótefnamælingu hjá rannsóknarstofu Sameindar eftir Covid-19 bólusetningu til þess að fullvissa sig um að það hafi myndað mótefni gegn Covid-19.
Yfirleitt mælist nóg af mótefni eftir bólusetningu en í sumum tilvikum mælist fólk ekki með nægilega góða mótefnasvörun. Kári segir þetta frekar stafa af fjölbreytileika mannsins heldur en bólefna.
„Það er ósköp einfaldlega hluti af mannlegri fjölbreytni að bregðast mismunandi við mótefnum sem finnast í okkar umhverfi.“
Hann segir Íslenska erfðagreiningu ekki rannsaka styrkleika ónæmissvara eftir bólusetningu.
„Ónæmissvarið er í tveimur megin þáttum þannig að annars vegar myndast mótefni, þar eru eggjahvítuefni sem bindast við allskonar hluta veirunnar. Þegar við sýkjumst eða erum bólusett myndast gjarnan mótefni gegn fleiru heldur en því sem mestu máli skiptir.
Það sem skiptir máli gagnvart þessari veiru er að það myndist mótefni gegn svokölluðu S-eggjahvítuefni sem binst við frumuna og reyni að komast inn í hana. Við göngum út frá því sem vísu að þau mótefni verji.
Síðan er svokallað frumubundið ónæmi. Þá eru hvítar blóðfrumur, lymphocyte eins og það kallast á útlensku, sem drepa þær frumur sem eru sýktar,“ útskýrir Kári.
Hann segir Íslenska erfðagreiningu hafa rannsakað bæði mótefnasvarið og frumubundna ónæmið gegn sýkingunni sjálfri. En ekki rannsakað kerfisbundið ónæmissvör í þeim sem eru bólusettir.
„Við erum margvísleg. Hvert einstakt eintak af mannskepnunni er alveg sérstakt og ekkert okkar er alveg eins. Það á ekki bara við um útlit heldur á það líka við um ónæmissvar.
Við erum með mjög misjafnt ónæmissvar og kraftur ónæmissvarsins fylgir normaldreifingu. Þannig að sumir bregðast við mótefnum með því að mynda kraftmikið ónæmissvar, aðrir tiltölulega slakt ónæmissvar. Það endurspeglar viðbrögðin við bólusetningu,“ segir Kári.
Hann segir sömuleiðis að þeir sem mest hafa veikst séu með kraftmesta ónæmissvarið. „Covid-19 er nokkurs konar sjálfsónæmissjúkdómur sem veiran kemur af stað.“
Kári segir þó ekki endilega hægt að horfa í það hversu veikt fólk varð eftir bólusetningu.
„Það er tvennt sem kemur til. Við bregðumst mismunandi hart við svona bóluefni og svo eru menn mismunandi kvartsárir. Eitt er alveg ljóst; þeir sem verða lasnastir eru karlmenn. Því þeir eru miklu kvartsárari en konur.“