Snjódrífurnar söfnuðu 17,5 milljónum

Snjódrífurnar ásamt Vigdísi Hallgrímsdóttur, forstöðumanni krabbameinsdeildar, Signýu Völu Sveinsdóttur, yfirlækni …
Snjódrífurnar ásamt Vigdísi Hallgrímsdóttur, forstöðumanni krabbameinsdeildar, Signýu Völu Sveinsdóttur, yfirlækni blóðlækninga, og Rögnu Gústafsdóttur deildarstjóra blóð- og krabbameinslækningadeildar Landspítalans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snjódrífurnar, sem standa að baki góðgerðarfélaginu Lífskrafti, afhentu Landspítalanum ávísun upp á 17,5 milljónir króna í morgun sem söfnuðust vegna ferðar um 130 kvenna upp á Hvannadalshnjúk fyrir mánuði.

Að sögn Guðrúnar Sigríðar Ágústsdóttur, eða Sirrýjar, rennur upphæðin til uppbyggingar á nýrri blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítalans. Lögð verður sérstök áhersla á að fjármagnið fari í aðbúnað sjúklinga og aðstandenda en auk þess verður starfsaðstaða fyrir starfsfólk bætt.

„Við ætlum að fara strax í að bæta hér aðstandendaherbergi þannig að fólk geti tekið á móti sínu fólki og átt góðar stundir,“ segir Sirrý en söfunin fór fram úr björtustu vonum Snjódrífanna.

Hún bætir við að þessi bætta aðstaða muni skila sér hratt og vel til marga, enda geti staðið um 10 manns á bak við einn sjúkling. „Þetta verður fljótt að telja með betri aðstöðu fyrir fleiri hundruð manna,“ segir hún.

„Við þökkum fyrir þann gríðarlega stuðning sem þjóðin hefur veitt þessu verkefni. Við erum ofboðslega þakklátar og meyrar yfir þeim mikla meðvindi sem við höfum fengið og gríðarlega stoltar og hamingjusamar,“ bætir Sirrý við í samtali við mbl.is. 

Sex ár liðin

Í tilkynningu segir Sirrý hugmyndina að ferðinni hafa kviknað þegar hún vildi fagna áfanganum að fimm ár voru liðin síðan læknar sögðu að hún ætti í mesta lagi 1-3 ár eftir ólifuð. Árin séu reyndar nú orðin sex því fresta þurfti upphaflegri tímasetningu um ár vegna Covid-faraldursins. Hugmyndin hafi svo vaxið og dafnað hjá sínum góða vinkonuhópi og afraksturinn orðið þessi fjölmenna ganga sem sýni vel kraft kvennasamstöðunnar og mikilvægi hennar fyrir samfélagið. „Þau gleðilegu tíðindi urðu svo að hver einasta kona sem lagði í förina komst upp á þennan hæsta tind landsins sem er alls ekki gefið í svo fjölmennri og erfiðri ferð sem þessari,“ segir Sirrý í tilkynningunni.

Afar þakklát 

„Starfsfólk blóð- og krabbameinslækningadeildar er mjög þakklátt og á ekki til orð af gleði yfir framtaki Snjódrífanna og þeirra kvenna sem gengu upp á Kvennadalshnúk. Gjöfin á eftir að gjörbreyta aðstöðunni hér bæði fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsmenn. Hér er mikil gleði og þakklæti með þessa höfðinglegu gjöf,“ segir Ragna Gústafsdóttir, deildarstjóri blóð- og krabbameinslækningadeildar Landspítala, í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert