Landspítalinn metur fjárþörf vegna styttingar vinnuviku í kringum tvo milljarða króna. Ráða þarf rúmlega 200 starfsmenn í viðbót hið minnsta.
Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, segir gott samtal vera í gangi á milli stjórnenda og fagráðuneytis spítalans og fjármálaráðuneytisins um aukið fjármagn. Fram kom í Morgunblaðinu að fresta hefur þurft skurðaðgerðum á Landspítalanum, meðal annars vegna styttingar vinnuvikunnar.
Í gær var svo greint frá því að lögreglan fengi 900 milljónir króna vegna styttingar vinnuvikunnar.
„Maður bindur vonir við að úr því að verið er að veita vaktavinnustofnunum aukapening verði það líka hjá okkur, því þetta er ennþá þyngra hjá okkur en lögreglunni. Það eru talsvert meiri upphæðir hjá okkur,“ segir Anna Sigrún.
„Ef þetta kemur ekki frá fjárveitingarvaldinu kallar þetta á samdrátt að öðru leyti,“ bætir hún við.
Aðspurð telur hún að heppilegra hefði verið að fá fjármagn áður en reglur tóku gildi um styttingu vinnuvikunnar á Landspítalanum og fyrir sumarið.
Anna Sigrún tekur þó fram að breytingin til framtíðar varðandi styttinguna sé virkilega góð, sérstaklega fyrir fólk í vaktavinnu. „En það eru hikstar mjög víða og þetta mun hafa áhrif á starfsemina, það liggur fyrir,“ segir hún um mannekluna og segir hana koma niður á öllum einingum spítalans. „Áhrifin eru gríðarleg á allar deildir sem eru reknar utan venjulegs vinnutíma.“
Vegna þess hve ólíkt fyrirkomulag styttingar vinnuvikunnar er eftir því hvort fólk er í dagvinnu eða vaktavinnu þá hefur verið talað um „styttingu vinnutíma“ hjá dagvinnufólki, sem er auðveldari í útfærslu, en „betri vinnutíma“ hjá vaktavinnufólki. Allt snýst þetta þó um færri klukkustundir í vinnu.