Lítið hefur breyst hvað varðar hraunrennsli í Geldingadölum síðan í gær. Að sögn viðbragðsaðila hefur hraunið ekki enn tekið að renna í gegnum skarðið við útsýnishólinn sem rýmdur var á sunnudag.
„Það er bara sama staða og hefur haldið sér núna undanfarna daga. Hraunrennslið er ekki komið upp í skarðið. Það vantar svona hálfan hæðarmetra í það. Það þarf ekki mikið til að það leki þar í gegn,“ segir Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurnesjum.
Samkvæmt Gunnari sinna viðbragðsaðilar ekki sólarhringsgæslu á svæðinu. Eftir rýmingu á útsýnishólnum hafi viðvörunar skilti þó verið sett upp og svokallaðir lokunarborðar lögreglu notaðir til að afmarka svæðið.
„Þeir ættu ekkert að fara framhjá fólki. Það besta sem við getum gert er að höfða til betri vitundar hjá fólki. Síðan höfum við með eftirlit með þessu þegar við erum með skipulagða vakt á svæðinu síðdegis,“ segir hann.
Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, segir erfitt að tryggja það að fólk komist til baka verði það innlyksa á útsýnishólnum.
„Það er svo margt sem getur brugðið út af og þá getur fólk setið fast þarna ansi lengi. Þá þarf að treysta á Landhelgisgæsluna til að fljúga fólki af hólnum. Það væri svolítið dýr aðgerð.“
Aðspurðir út í vestari varnargarðinn segja bæði Gunnar og Bogi ástandið þar vera óbreytt.
„Garðurinn heldur allavega ennþá. Hraunið er samt sirka metra hærri en hann svo ég veit ekki hvernig hann gerir það. Það hefur allavega ekki flætt yfir hann enn þá,“ segir Gunnar.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort reisa eigi nýjan varnargarð neðan við Nátthaga, segir Gunnar.
„Það hefur ekki verið startað neinu þar. Ég held það sé bara í vinnslu enn þá.“