Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifuðu í dag undir samning um áframhaldandi fjármögnun á Barka-verkefninu. Verkefnið felur í sér þjónustu við heimilislausa af erlendum uppruna, með búsetu á Íslandi.
Barka- verkefnið er samstarf félagsmálaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Barka, pólskra samtaka sem veita stuðning og ráðgjöf við heimilislaust fólk af erlendum uppruna.
Þjónusta Barka felst í vettvangsteymi sem fer á milli þeirra staða sem heimilislausir sækja helst. Markmið verkefnisins er að stuðla að betri lífsgæðum heimilislausra einstaklinga, hvort sem í því felst að snúa aftur til heimalands eða vera áfram á Íslandi en tungumálaörðugleikar hamla mjög möguleikum þessa hóps til að fá meðferð við hæfi hér á landi.
Barka-samtökin voru upprunalega stofnuð í Póllandi árið 1989 til að hjálpa fólki í erfiðum félagslegum aðstæðum.
Reykjavíkurborg hefur verið með samning við Barka-samtökin frá árinu 2016 en með tilkomu styrks félags- og barnamálaráðherra mun Barka framvegis þjónusta einstaklinga óháð lögheimilissveitarfélagi.
Þjónusta Barka byggir á jafningjafræðslu og þeir sem leiða starfið hafa sjálfir verið heimilislausir og glímt við áfengis- og/eða vímuefnavanda. Samhliða jafningjafræðslunni starfar háskólamenntaður starfsmaður, yfirleitt með menntun á sviði heilbrigðis- eða félagsvísinda.