Allar líkur á að dóminum verði áfrýjað

Marek Moszcynski ásamt lögmanni sínum, Stefáni Karli Kristjánssyni.
Marek Moszcynski ásamt lögmanni sínum, Stefáni Karli Kristjánssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stefán Karl Kristjánsson lögmaður, verjandi Marek Moszcynski, segir að það kæmi honum ekki á óvart ef dómi Héraðsdóms Reykjavíkur verði áfrýjað til Landsréttar á grundvelli þess að Marek hefur ætíð haldið fram sakleysi sínu.

Marek var ákærður fyrir brennu, manndráp og tilraun til manndráps, með því að hafa kveikt eld á gólfi í herbergi sínu á annarri hæð að Bræðraborgarstíg 1 og á tveimur stöðum á gólfi í sameiginlegu rými á sömu hæð, undir stiga sem lá upp á þriðju hæð hússins, og valdið þannig eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu en 13 manns voru í húsinu þegar hann  kveikti eldinn. Þrír íbúar í húsinu létu lífið og fjórir slösuðust. 
Fjölskipaður héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að sakfella ætti Maerk fyrir það sem honum er gefið að sök. Hins vegar taldi dómurinn engum vafa  undirorpið að ástand Marekst hafi á þeim tíma sem um ræðir verið þannig að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum og var hann því sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins.
Dómurinn, sem skipaður er sérfróðum meðdómsmanni, taldi einnig nauðsynlegt, vegna réttaröryggis,  að ákærði sætti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Þá þyki rétt að á þeim tíma gangist ákærði undir viðeigandi meðferð vegna veikinda sinna.
Marek var einnig gert greiða aðstandendum þeirra þriggja sem létust í brunanum og þeim sem urðu fyrir líkams- eða eignatjóni tæpar 30 milljónir í skaðabætur. 
Úr dómsalnum í héraðsdómi skömmu áður en dómurinn var kveðinn …
Úr dómsalnum í héraðsdómi skömmu áður en dómurinn var kveðinn upp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður hvort að skjólstæðingur Stefáns hafi efni á þeirri upphæð segist hann ekki geta svarað því. „Við erum að horfa á mjög alvarlegt og sorglegt mál. Á þessari stundu er mér alveg nákvæmlega sama um sakarkostnað. Við erum komin með niðurstöðu og það þarf bara að skoða framhaldið,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.

Dómurinn kom ekki á óvart

Bæði Stefán og saksóknari málsins, Kolbrún Benediktsdóttir, sögðu að dómurinn hefði ekki komið á óvart.

Stefán segir að niðurstaða um sýknun af refsikröfu sé eins og búist var við. „Þarna er alveg ljóst að lyfjagjöf hefur valdið ákveðnu maníukasti,“ segir Stefán og leggur áherslu á að hann telji það mikilvægt að sá þáttur sé skoðaður vel. „Ef að málið fer eitthvað lengra þá þætti mér ekki óeðlilegt að dómkveða matsmenn í tilliti til að rannsaka það sérstaklega.“

Kolbrún Bendiktsdóttir varahéraðsaksóknari á leið í dómsalinn.
Kolbrún Bendiktsdóttir varahéraðsaksóknari á leið í dómsalinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kolbrún sagði í samtali við mbl.is að dómurinn hafi fallist á að Marek væri sakfelldur fyrir allar ákærur nema fyrir þá einstaklinga sem voru í viðbyggingu hússins, þar sem þeir voru ekki í lífshættu. Það voru tveir Íslendingar og tveir frá Afganistan.

Kolbrún reiknar með að réttargæslumenn fari yfir dóminn með fyrrverandi íbúum hússins á næstunni.

Kolbrún fór fram á að Marek yrði dæmdur til vistunar á réttargeðdeild ef hann yrði dæmdur ósakhæfur og ævilangt fangelsi yrði hann dæmdur sakhæfur.

Stefán Karl fór fram á sýknu en til öryggis vægasta dóm, að Marek yrði látinn laus með skilyrði um heimsóknir til heimilislækni í samræmi við tillögur geðlæknis.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.

Sögulegt mál

Þétt var setið í dómsal 402 þar sem fjölmiðlar landsins fylgdust með dómsuppkvaðningu en hinn ákærði mætti ekki í dómsalinn. Marek lagði fram yfirlýsingu en hún var ekki lesin upp í salnum.

Málið er sögulegt en Marek er sá fyrsti í Íslandssögunni sem dæmdur er fyrir að bana þremur einstaklingum. Aðstandendur þeirra þriggja sem létust í brunanum og þeir sem urðu fyrir líkams- eða eignatjóni fóru fram á um 70 milljónir króna í bætur.

Honum er hins vegar gert að greiða fyrrverandi íbúum á Bræðraborgarstígs bætur, sem nema allt frá 500 þúsund krónum upp í 11 milljónir, alls tæpar 30 milljónir. Allur sakarkostnaður verður greiddur upp úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert