Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir að það hafi komið sér á óvart að athugasemdir hefðu verið lagðar fram um framkvæmd framboðs hennar. Að öðru leyti vilji hún ekki „takast á við samstarfsfélaga mína í fjölmiðlum.“
Yfirkjörstjórn Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, komst að þeirri niðurstöðu nú fyrir skömmu að framboðið hefði ekki brotið gegn prófkjörsreglum flokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson og Diljá Mist Einarsdóttir lögðu fyrr í dag fram formlega athugasemd til yfirkjörstjórnar Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, vegna gruns um að Magnús Sigurbjörnsson, bróðir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, hefði nýtt aðgang sem hann hafði að flokkskrá Sjálfsstæðisflokksins í þágu prófkjörsbaráttu hennar.
Guðlaugur Þór og Áslaug Arna bjóða sig bæði fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fer um helgina en Diljá Mist býður sig fram í það þriðja.
Í úrskurði yfirkjörstjórnarinnar kemur fram að Magnús hafi haft aðgang að flokkskrá Sjálfstæðisflokksins vegna verkefna sem hann vann fyrir flokkinn. Yfirkjörstjórn hafi farið yfir innskráningar Magnúsar í flokksskrá og síðasta innskráning hans hafi verið þann 10. maí. Var sú innskráning að beiðni starfsmanns Sjálfstæðisflokksins vegna verkefnis sem Magnús vann að, segir í úrskurðinum.
„Yfirkjörstjórn hefur staðfest að kvörtunin var ekki á rökum reist, enda kom það mér á óvart að hún væri lögð fram. Að öðru leyti ætla ég ekki að takast á við samstarfsfélaga mína í fjölmiðlum.
Prófkjörsbaráttan hefur verið skemmtileg og jákvæð og ég finn fyrir miklum áhuga fólks á öllum aldri.
Ég vona að sem flestir taki þátt í prófkjörinu, enda gefst fólki þar kostur að hafa áhrif á uppröðun lista."