Marek Moszcynski var sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins rétt í þessu fyrir að hafa kveikt í húsi á Bræðraborgarstíg síðasta sumar með þeim afleiðingum að þrír létust. Marek er þó sakfelldur fyrir allar ákærur nema fyrir þá einstaklinga sem voru í viðbyggingu hússins, þar sem þeir voru ekki í lífshættu.
Honum verður gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun vegna ósakhæfis og verður hann strax fluttur á réttargeðdeild í dag úr fangelsi.
Marek er gert að greiða aðstandendum þeirra þriggja sem létust í brunanum og þeir sem urðu fyrir líkams- eða eignatjóni um 30 milljónir króna í bætur. Málskostnaður verður greiddur úr ríkissjóði.
Marek mætti ekki sjálfur í dómssal.
Aðalmeðferð í málinu hófst í apríl en Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari er saksóknari í málinu.
Marek neitaði sök um manndráp og íkveikju við þingfestingu málsins síðasta haust. Þrír geðlæknar hafa metið manninn ósakhæfan og staðfestu þeir þar með fyrra mat geðlækna.
Í ákærunni er maðurinn sagður hafa kveikt eld á gólfi í herbergi sínu á annarri hæð, á tveimur stöðum á gólfi í sameiginlegu rými á sömu hæð og undir stiga sem sem lá upp á þriðju hæð hússins. Þar kemur jafnframt fram að þegar hann hafi kveikt eldinn hafi 13 manns verið í húsinu og var húsið orðið nær alelda þegar slökkvistarf hófst.
Þrjú létust í brunanum, 24 ára kona, 21 árs karlmaður og 26 ára kona. Kemur fram í ákærunni að þau tvö fyrrnefndu hafi látist af völdum koloxíðeitrunar við innöndun á reyk, en hin konan látist þegar hún féll niður af þriðju hæð þegar hún reyndi að flýja eldinn.