Ekki brotið gegn reglum flokksins

Valhöll.
Valhöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfirkjörstjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hefur komist að þeirri niðurstöðu að framboð Áslaugar Örnu hafi ekki brotið gegn prófkjörsreglum flokksins um jafnan aðgang að gögnum Sjálfstæðisflokksins. 

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son og Diljá Mist Ein­ars­dótt­ir lögðu fyrr í dag fram form­lega at­huga­semd til yfirkjörstjórnar vegna gruns um að Magnús Sig­ur­björns­son, bróðir Áslaug­ar Örnu, hefði nýtt aðgang sem hann hafði að flokk­sskrá Sjálfs­tæðis­flokks­ins í þágu próf­kjörs­bar­áttu hennar.

Í úrskurði yfirkjörstjórnarinnar kemur fram að Magnús hafi haft aðgang að flokksskrá Sjálfstæðisflokksins vegna verkefna sem hann vann fyrir flokkinn. Yfirkjörstjórn hafi farið yfir innskráningar Magnúsar í flokksskrá og síðasta innskráning hans hafi verið hinn 10. maí. Var sú innskráning að beiðni starfsmanns Sjálfstæðisflokksins vegna verkefnis sem Magnús vann að.

Yfirkjörstjórn mun ekki aðhafast frekar

Kjörskrá var afhent frambjóðendum hinn 18. maí, en athugasemdir Guðlaugs og Diljár lutu að því hvort Magnús hefði nýtt aðgang að flokksskránni til að nálgast uppfærslur á kjörskránni og ítarlegri upplýsingar um flokksmenn eftir þann tíma. 

„Í ljósi framangreinds er það niðurstaða yfirkjörstjórnar að athugasemdirnar eigi ekki við rök að styðjast og ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 4. gr. prófkjörsreglna um jafnan aðgang að gögnum Sjálfstæðisflokksins,“ segir í úrskurðinum.

„Yfirkjörstjórn Varðar mun ekki aðhafast frekar vegna athugasemda framboða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Diljár Mistar Einarsdóttur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka