Gera athugasemdir vegna prófkjörsins

Guðlaugur Þór Þórðarsson.
Guðlaugur Þór Þórðarsson. mbl.is/Haraldur Guðjónsson Torst

Guðlaugur Þór Þórðarson og Diljá Mist Einarsdóttir hafa lagt fram formlega athugasemd vegna gruns um að Magnús Sigurbjörnsson, bróðir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, hafi nýtt aðgang sem hann hafði að flokkskrá Sjálfsstæðisflokksins í þágu prófkjörsbaráttu systur sinnar.

Guðlaugur Þór og Áslaug bjóða sig bæði fram í fyrsta sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík sem fram fer nú um helgina. Um er að ræða sameiginlega kvörtun Guðlaugs og Diljáar, sem er einnig í framboði í prófkjörinu og er aðstoðarmaður Guðlaugs í utanríkisráðuneytinu.

Nákvæmar og uppfærðar upplýsingar um flokksmenn

„Í ljós hefur komið að Magnús Sigurbjörnsson bróðir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og kosningastjóri hafði aðgang að flokksskrá Sjálfstæðisflokksins, það er nákvæmar og stöðugt uppfærðar upplýsingar um flokksmenn eftir að framboðsfrestur í prófkjörinu rann út," segir í athugasemdinni, sem fyrst var sagt frá á vef Fréttablaðsins.

„Skrifstofa Sjálfstæðisflokksins aðhafðist ekkert í málinu fyrr en umboðsmaður framboðsins óskaði eftir upplýsingum um hvaða aðilar hefðu aðgang að flokkskránni mánudaginn 31. maí."

Starfsmenn flokksins sögðust ætla að skoða málið og staðfestu loks við umboðsmann framboðsins að Magnús hafði aðgang að skránni. Staðfest var að aðganginum hafi verið lokað símleiðis þann 1. júní 2021." 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mb.is/Eggert Jóhannesson

Yfirlýsing framboðs Guðlaugs 

„Vegna umfjöllunar fjölmiðla um athugasemdir við framkvæmd prófkjörs þá er það rétt að athugasemdum hefur verið komið á framfæri til yfirkjörstjórnar og hún mun fara yfir það mál í samstarfi við framkvæmdastjórn flokksins. Það er réttur farvegur fyrir málið," segir í yfirlýsingu frá framboði Guðlaugs Þórs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka