Fagridalur, sem er norðan Fagradalsfjalls, hefur ekki verið mikið í umræðunni þrátt fyrir eldgosið í Geldingadölum en forvitinn lesandi Vísindavefs Háskóla Íslands sendi nýverið inn spurningu um örnefnið.
Í svari Birnu Lárusdóttur, fornleifafræðings og sérfræðings hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, kemur fram að dalnum sé lýst sem uppblásnu landi eða aurmelum, en svæðið hefur í seinni tíð einfaldlega verið kallað Aurar af heimamönnum ef marka má örnefnalýsingar, þótt Fagradalsnafnið lifi góðu lífi á ýmsum kortum.
„Örnefnið Fagridalur á sér langa sögu. Þess er getið í gömlu skjali sem var skrifað upp eftir afgömlum og rotnum blöðum úr bréfabók Gísla Jónssonar sem líklegast er frá því um 1500 — en nafnið gæti hæglega verið eldra. Í skjalinu er fjallað um landamerki milli Voga og Grindavíkur og talið að Vogar eigi land neðan frá að Kálfsfelli og upp að Vatnskötlum fyrir innan Fagradal. Markalínan milli hreppanna tveggja hefur annars löngum verið umdeild og Fagridalur komið þar við sögu.
Í upphafi 18. aldar var til að mynda uppi ágreiningur um selstöðu í dalnum og vildu hvorir tveggja, Stóru-Vogamenn og Járngerðarstaðamenn, eigna sér hana fyrir búpening sinn. Það gæti bent til að þar hafi enn verið einhverjar gróðurtorfur og þótt vænlegt til sumarbeitar, en mörg örnefni með forliðnum Fagri-/Fagra- vísa einmitt til grænku og góðra nytja — ekki síst ef samanburðurinn er kolsvört hraun eða örfoka svæði. Tóftir selsins sem rifist var um, Dalssels, eru enn sýnilegar. Í heimildum frá árinu 1840 er dalurinn sagður stórgrýttur af skriðum og graslítill, þó er tekið fram að hann hafi fyrrum verið fagur,“ segir í svari Birnu.
Nýlega hefur örnefni bæst í afsprengjahóp Fagradals, Fagradalshraun, sem dregur þó nafn sitt ekki beint af dalnum (enda rennur það ekki um hann) heldur fremur af Fagradalsfjalli og eldstöðvarkerfinu, Fagradalsfjallskerfinu.