Glæpasagnahöfundurinn Ragnar Jónasson heldur áfram að bæta á sig blómum úti í heimi. Bók hans, Þorpið, sem kom út hér á landi 2018, er glæpasaga júnímánaðar í breska stórblaðinu The Times.
Gagnrýnandi blaðsins segir að þessi „tíðarandatryllir“ sé „hrikalega grípandi“, Ragnar Jónasson sé skáld hins „dimma og hráslagalega“, skáld „myrkurs, kulda og rigningar“ og að óttatilfinningin sem aðalpersónan gefi sig smám saman á vald í sögunni sé hryllilega smitandi.
Skrif Ragnars virðast leggjast vel í fólk á Bretlandi og bækur hans hafa notið talsverðrar hylli þar, eins og reyndar víðar. Sunday Times valdi til dæmis glæpasögu hans, Dimmu, sem eina af hundrað bestu glæpasögum sem skrifaðar hafa verið frá stríðslokum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.