Áslaugu og Guðlaugi ber ekki saman

Áslaug segir það ekki rétt að athugasemdin hafi verið staðfest …
Áslaug segir það ekki rétt að athugasemdin hafi verið staðfest af yfirkjörstjórn. Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson segir að athugasemdin sem hann og Diljá Mist Einarsdóttir lögðu fram til yfirkjörstjórnar varðandi prófkjör Sjálfstæðisflokksins, hafi verið staðfest. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir segir það ekki rétt.

Þessi ólíku svör fengust frá þeim Áslaugu og Guðlaugi þegar þau gengu út af ríkisstjórnarfundi í morgun. Nú stendur yfir prófkjör Sjálfstæðisflokksins þar sem Áslaug Arna og Guðlaugur Þór bjóða sig bæði fram í fyrsta sæti í Reykjavíkurkjördæmi.

Athugasemdin sem um ræðir sneri að því að Magnús Sigurbjörnsson, bróðir Áslaugar Örnu, hafi haft aðgang að flokkskrá Sjálfstæðisflokksins, nákvæmar og stöðugt uppfærðar upplýsingar um flokksmenn, í aðdraganda prófkjörsins og eftir að framboðsfrestur rann út.

Grunur var því um að hann hafi nýtt sér þessar upplýsingar í þágu prófkjörsbaráttu systur sinnar.

Í niðurstöðu yfirkjörstjórnar var því slegið föstu að Magnús hafi haft aðgang að flokkskrám en þeim aðgangi hafi verið lokað þann 1. júní og sjá má að hann hafi ekki nýtt sér þennan aðgang á þann hátt að það varði prófkjörsreglur um jafnan aðgang frambjóðenda að gögnum.

Í úrskurði yfirkjörstjórnar segir að athugasemdirnar eigi ekki við rök að styðjast.

„Það var gerð athugasemd við að viðkomandi einstaklingur væri með þennan aðgang og það var staðfest,“ sagði Guðlaugur Þór í samtali við mbl.is. Hann vildi þó ekki gera athugasemd við það hvort hann væri sáttur við niðurstöðuna eða ekki.

Þegar Áslaug Arna var spurð út í þessi orð Guðlaugs sagði hún það einfaldlega ekki rétt að athugasemdin hafi verið staðfest af yfirkjörstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka