Breytingar á óróavirkni gossins

Eldgosið í Geldingadölum.
Eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Einar Falur

Mæl­ing­ar sýna að eng­in merki eru um að dragi úr gos­inu. Þvert á móti hef­ur það frek­ar auk­ist með tím­an­um. Hversu lengi það var­ir er ómögu­legt að segja til um á þessu stigi sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands. Breyt­ing­ar urðu á óróa­virkn­inni í gær­kvöldi og í nótt.

Ein­ar Hjör­leifs­son, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, seg­ir að í gær hafi mælst smá breyt­ing­ar á óróa­virkni eld­goss­ins og aft­ur í nótt en svo virðist sem það sé komið í reglu­bund­inn fasa að nýju. Við þess­ar breyt­ing­ar varð meiri viðvar­andi virkni en óró­inn féll niður á milli. 

Útsýn­is­hóll­inn ekki orðinn að óbrenn­is­hólma

Enn hef­ur ekki mynd­ast óbrenn­is­hólmi þar sem út­sýn­is­hóll­inn er en allt bend­ir til þess að það geti gerst á næstu dög­um. 

Útsýn­is­hóll­inn hef­ur verið einn af aðal­út­sýn­is­stöðunum frá því gosið hófst og þarna hef­ur fólk kom­ist hvað næst gos­inu. Hóll­inn sem um ræðir er á milli Geld­inga­dala og dals­ins sem er syðstur Mera­dala og er hóll­inn á nyrsta enda hryggj­ar­ins.

Í dag er gert ráð fyr­ir aust­an 8-13 metr­um á sek­úndu við gosstöðvarn­ar en sunna­nátt 3-8 síðdeg­is. Gas mun ber­ast til norðvest­urs og gæti orðið vart í byggð á norðvest­an­verðu Reykja­nesi. Gas mun ber­ast til norðurs síðdeg­is og gæti orðið vart í byggð á Vatns­leysu­strönd­inni.

Hraunið mæl­ist nú 54 millj­ón­ir rúm­metra og flat­ar­málið 2,67 km²

Nýj­ar mæl­ing­ar voru gerðar á miðviku­dag (2. júní) en þá flaug Garðaflug með Hassel­blad-mynda­vél Nátt­úru­fræðistofn­un­ar Há­skóla Íslands og hafa nú verið unn­in land­líkön af Fagra­dals­hrauni. 

Meðal­hraun­rennslið yfir tíma­bilið 18. maí – 2. júní (15 dag­ar) er 12,4 m3/​s. Þessi mæl­ing staðfest­ir að sú aukn­ing á hraun­rennsli sem varð í byrj­un maí hef­ur hald­ist. Hraun­rennsli í maí var því tvö­falt meira en var að meðaltali fyrstu sex vik­urn­ar. 

Hraunið mæl­ist nú 54 millj. rúm­metra og flat­ar­málið 2,67 fer­kíló­metr­ar. 

Mæl­ing­arn­ar nú sýna að eng­in merki eru um að dragi úr gos­inu. Þvert á móti hef­ur það frek­ar auk­ist með tím­an­um. Hversu lengi það var­ir er ómögu­legt að segja til um á þessu stigi að því er seg­ir á vef Jarðvís­inda­stofn­un­ar Há­skóla Íslands.  

„Eins og áður hef­ur komið fram má skipta gos­inu í þrjú tíma­bil: Fyrsta tíma­bilið stóð í um tvær vik­ur og ein­kennd­ist af frem­ur stöðugu en þó ör­lítið minnk­andi hraun­rennsli. Rennslið lækkaði úr 7-8 m3/​s í 4-5 m3/​s á tveim­ur vik­um.    

Annað tíma­bilið, sem einnig stóð í tvær vik­ur, ein­kennd­ist af opn­un nýrra gosopa norðan við upp­haf­legu gíg­ana. Hraun­rennsli var nokkuð breyti­legt, á bil­inu 5-8 m3/​s. 

Þriðja tíma­bilið, síðustu sjö vik­ur, hef­ur einn gíg­ur verið ráðandi og kem­ur allt hraunið úr hon­um. Nú er hægt að skipta þessu tíma­bili í tvo hluta. Fyrst voru þrjár vik­ur þar sem rennslið var 5-8 m3/​s og held­ur vax­andi. Und­an­far­inn mánuð hef­ur rennslið verið 11-13 m3/​s. Þrátt fyr­ir þessa aukn­ingu get­ur hraun­rennslið ekki tal­ist mikið miðað við mörg önn­ur gos,“ seg­ir í nýrri skýrslu Jarðvís­inda­stofn­un­ar um eld­gosið í Geld­inga­döl­um.

Gosið í Fagra­dals­fjalli er um margt frá­brugðið þeim gos­um sem við höf­um orðið vitni að und­an­farna ára­tugi. Flest gos­in hafa átt upp­tök í kviku­hólf­um und­ir meg­in­eld­stöðvum þar sem þrýst­ing­ur í hólf­inu og stærð þess virðist ráða mestu um stærð og lengd goss. 

Í Fagra­dals­fjalli virðist þessu vera nokkuð öðru­vísi varið. Þar er svo að sjá að aðstreym­isæðin og eig­in­leik­ar henn­ar ráði miklu um kvikuflæðið. Rás­in sem opnaðist var til­tölu­lega þröng og löng (nær niður á ~17 km dýpi) og flutn­ings­get­an tak­mörkuð. Aukn­ing með tíma bend­ir til þess að rás­in fari víkk­andi, senni­lega vegna rofs í veggj­um henn­ar.  Ekki er að sjá að þrýst­ing­ur í upp­tök­um hafi minnkað að ráði og því vex flæðið með tím­an­um þar sem rás­in stækk­ar.  Eng­in leið er á þess­ari stundu til að segja til um hve lengi gosið muni vara eða hvort hraun­rennslið muni halda áfram að aukast. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert