Mælingar sýna að engin merki eru um að dragi úr gosinu. Þvert á móti hefur það frekar aukist með tímanum. Hversu lengi það varir er ómögulegt að segja til um á þessu stigi samkvæmt upplýsingum frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Breytingar urðu á óróavirkninni í gærkvöldi og í nótt.
Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að í gær hafi mælst smá breytingar á óróavirkni eldgossins og aftur í nótt en svo virðist sem það sé komið í reglubundinn fasa að nýju. Við þessar breytingar varð meiri viðvarandi virkni en óróinn féll niður á milli.
Enn hefur ekki myndast óbrennishólmi þar sem útsýnishóllinn er en allt bendir til þess að það geti gerst á næstu dögum.
Útsýnishóllinn hefur verið einn af aðalútsýnisstöðunum frá því gosið hófst og þarna hefur fólk komist hvað næst gosinu. Hóllinn sem um ræðir er á milli Geldingadala og dalsins sem er syðstur Meradala og er hóllinn á nyrsta enda hryggjarins.
Í dag er gert ráð fyrir austan 8-13 metrum á sekúndu við gosstöðvarnar en sunnanátt 3-8 síðdegis. Gas mun berast til norðvesturs og gæti orðið vart í byggð á norðvestanverðu Reykjanesi. Gas mun berast til norðurs síðdegis og gæti orðið vart í byggð á Vatnsleysuströndinni.
Nýjar mælingar voru gerðar á miðvikudag (2. júní) en þá flaug Garðaflug með Hasselblad-myndavél Náttúrufræðistofnunar Háskóla Íslands og hafa nú verið unnin landlíkön af Fagradalshrauni.
Meðalhraunrennslið yfir tímabilið 18. maí – 2. júní (15 dagar) er 12,4 m3/s. Þessi mæling staðfestir að sú aukning á hraunrennsli sem varð í byrjun maí hefur haldist. Hraunrennsli í maí var því tvöfalt meira en var að meðaltali fyrstu sex vikurnar.
Hraunið mælist nú 54 millj. rúmmetra og flatarmálið 2,67 ferkílómetrar.
Mælingarnar nú sýna að engin merki eru um að dragi úr gosinu. Þvert á móti hefur það frekar aukist með tímanum. Hversu lengi það varir er ómögulegt að segja til um á þessu stigi að því er segir á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.
„Eins og áður hefur komið fram má skipta gosinu í þrjú tímabil: Fyrsta tímabilið stóð í um tvær vikur og einkenndist af fremur stöðugu en þó örlítið minnkandi hraunrennsli. Rennslið lækkaði úr 7-8 m3/s í 4-5 m3/s á tveimur vikum.
Annað tímabilið, sem einnig stóð í tvær vikur, einkenndist af opnun nýrra gosopa norðan við upphaflegu gígana. Hraunrennsli var nokkuð breytilegt, á bilinu 5-8 m3/s.
Þriðja tímabilið, síðustu sjö vikur, hefur einn gígur verið ráðandi og kemur allt hraunið úr honum. Nú er hægt að skipta þessu tímabili í tvo hluta. Fyrst voru þrjár vikur þar sem rennslið var 5-8 m3/s og heldur vaxandi. Undanfarinn mánuð hefur rennslið verið 11-13 m3/s. Þrátt fyrir þessa aukningu getur hraunrennslið ekki talist mikið miðað við mörg önnur gos,“ segir í nýrri skýrslu Jarðvísindastofnunar um eldgosið í Geldingadölum.
Gosið í Fagradalsfjalli er um margt frábrugðið þeim gosum sem við höfum orðið vitni að undanfarna áratugi. Flest gosin hafa átt upptök í kvikuhólfum undir megineldstöðvum þar sem þrýstingur í hólfinu og stærð þess virðist ráða mestu um stærð og lengd goss.
Í Fagradalsfjalli virðist þessu vera nokkuð öðruvísi varið. Þar er svo að sjá að aðstreymisæðin og eiginleikar hennar ráði miklu um kvikuflæðið. Rásin sem opnaðist var tiltölulega þröng og löng (nær niður á ~17 km dýpi) og flutningsgetan takmörkuð. Aukning með tíma bendir til þess að rásin fari víkkandi, sennilega vegna rofs í veggjum hennar. Ekki er að sjá að þrýstingur í upptökum hafi minnkað að ráði og því vex flæðið með tímanum þar sem rásin stækkar. Engin leið er á þessari stundu til að segja til um hve lengi gosið muni vara eða hvort hraunrennslið muni halda áfram að aukast.