Nýgengi kórónuveirusmita er nú lægra á Möltu en á Íslandi aðra vikuna í röð samkvæmt tölum Sóttvarnastofnunar Evrópu. Svipaður fjölda landa er nú undir 100 og þau sem eru með yfir 100 smit á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikurnar.
Miklir fyrirvarar eru á tölum Sóttvarnastofnunar Evrópu þar sem bæði vantar upplýsingar frá ríkjunum og vegna uppfærslu á aðferðum við mælingar. Til að mynda er talan fyrir Frakkland neikvæð vegna breyttrar tölfræði. Tæknileg vandamál valda því að Svíar hafa ekki getað uppfært tölur fyrir viku 21 og 22.
Nýgengið er lægst á Möltu en Ísland skipar síðan annað sæti listans. Þau ríki eru bæði græn á meðfylgjandi korti stofnunarinnar en grænum svæðum í Evrópu fjölgar á milli vikna.
Litháen er það ríki sem er með hæsta nýgengi kórónuveirusmita meðal þeirra ríkja Evrópu sem Sóttvarnastofnun Evrópu heldur utan um. Þar er nýgengið 311,84 á hverja 100 þúsund íbúa síðustu 14 daga og er landið það eina sem er með nýgengi yfir 300.
Sóttvarnastofnun Evrópu heldur utan um fjölda smita í ríkjum Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins og Bretland því ekki talið með. Vegna breyttrar aðferðar við útreikninga á nýgengi í Frakklandi eru ekki tölur þaðan með í þetta skiptið.
Á Íslandi eru smitin 10,44 á hverja 100 þúsund íbúa en í Finnlandi eru þau 40,52. Í Noregi eru þau 102,90 og 238,51 í Danmörku. Á Möltu er nýgengið 9,91.