Sérfræðingur á bílaleigumarkaði sem Morgunblaðið ræddi við telur að Ísland verði uppselt í ágúst – september hvað varðar aðgang að bílaleigubílum, en aðeins níu þúsund bílar eru núna til í landinu fyrir ferðamenn, samanborið við nítján þúsund árið 2019.
Málið sé einfalt reikningsdæmi. Ef eitt hundrað þúsund ferðamenn komi til landsins í ágúst og september sem ekki sé ólíklegt, þýði talan níu þúsund að skortur geti orðið á bílum. Erfitt sé að breyta því í skyndi þar sem aðfangakeðjur séu enn laskaðar vegna faraldursins. Bílaverksmiðjur séu margar enn lokaðar og tafir séu á framleiðslu og afhendingu íhluta eins og hálfleiðara.
Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi, segir fyrirtækið hafa þrátt fyrir óvissu og enga bílaleigusamninga í hendi tryggt sér ákveðið magn af bílum – sem núna eru velflestir fráteknir fyrir leigurnar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.