Jafnréttismál í fyrsta sinn í fríverslunarsamningi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fríverslunarsamningur Íslands og Bretlands sem náðist í dag tekur til margra þátta og þeir sem að samningnum standa segja að hann sé jafnvel betri en sá samningur sem Bretar náðu við Evrópusambandið í kjölfar útgöngu þeirra úr sambandinu. 

Auk þess sem Bretar gerðu tvíhliða samning við Ísland gerðu þeir einnig tvíhliða samninga við hin EFTA-ríkin, Noreg og Liechtenstein. 

Á vef utanríkisráðuneytisins má finna nokkuð ítarlega útlistun þeirra þátta sem samningurinn tekur til.

Ekki eru þó allir á eitt sáttir, eins og kom fram á Alþingi í dag, þar sem stjórnarandstaðan gagnrýndi Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra fyrir samráðsleysi. 

Viðskipti og fríverslun

Á vef utanríkisráðuneytisins segir að Ísland muni njóta sömu viðskiptakjara í viðskiptum við Breta og þegar þeir voru í ESB, meðal annars fullt tollfrelsi á iðnaðarvörum. 

Bretar eru einn helsti kaupandi íslenskra sjávarafurða og nema tekjur Íslands af þeim viðskiptum um 55 milljörðum á ári. 

„Hvað landbúnaðarafurðir varðar eru tryggð viðbótartækifæri til útflutnings fyrir lambakjöt og skyr með tollfrjálsum innflutningskvótum, sem nema 692 tonnum fyrir lambakjöt og 329 tonnum fyrir skyr. Þannig má segja að samningurinn stækki Evrópumarkað varanlega fyrir íslenskar útflutningsvörur. Þessi niðurstaða náðist án þess að stækka til muna innflutningsmöguleika til Íslands. Ísland mun veita Bretlandi tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir 19 tonnum af hvers konar osti, 11 tonnum af ostum sem verndað afurðaheiti vísar til uppruna og 18,3 tonnum af unnum kjötvörum,“ segir svo á vef utanríkisráðuneytisins. 

Sérfræðingar geta veitt þjónustu í Bretlandi

Í samningnum er réttur hérlendra sérfræðinga tryggður til þess að starfa og veita þjónustu í Bretlandi. Það gildir til dæmis um verkfræðinga, arkitekta, lögfræðinga, endurskoðendur og ýmsa tæknifræðinga.

Einstaklingar sem koma í viðskiptaerindum á tilgreindum sviðum geta veitt þjónustu í allt að 90 daga á 180 daga fresti án skilyrða. Þá geta einstaklingar sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis dvalið í Bretland í þrjú ár og makar/börn fá rétt til að dvelja og vinna í Bretlandi á sama tíma.

Þá gerir samningurinn sérfræðingum kleift að fá menntun og starfsreynslu viðurkennda ef það uppfyllir sambærilegar kröfur/hæfni fyrir sama starf í Bretlandi.

Valdefling kvenna

Sérstakur kafli er í samningnum um jafnréttismál og valdeflingu kvenna í viðskiptum. Það er í fyrsta skipti sem kveðið er á um jafnréttismál í fríverslunarsamningi við annað ríki. Ísland lagði mikið upp úr því að slík ákvæði yrðu höfð með við samningagerð og náðu þau sjónarmið fram að ganga. Á vef utanríkisráðuneytisins segir um þann kafla:

„Í þessum kafla er mikilvægi jafnréttismála og kynjasjónarmiða undirstrikað og ríkin skuldbinda sig til að framkvæma samninginn með kynjajafnrétti að leiðarljósi. Þá eru alþjóðlegar skuldbindingar á sviði jafnréttismála ítrekaðar og opnað á samstarf við Breta um ýmis mál á sviði jafnréttis og viðskipta og fjárfestinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert