Metþátttaka í lengsta utanvegahlaupi landsins

Keppendur í lengstu vegalend Hengils Ultra lögðu af stað klukkan …
Keppendur í lengstu vegalend Hengils Ultra lögðu af stað klukkan 14:00, en framundan er 161 km leið. Ljósmynd/Hengill Ultra

Lengsta og stærsta utanvegahlaup á Íslandi, Hengill Ultra, hófst núna klukkan 14 í Hveragerði. Yfir 1.300 hlauparar eru skráðir til leiks í ár og hefur fjöldi keppenda því tvöfaldast frá því fyrir ári. 

Einar Bárðarson er einn þeirra sem stendur fyrir hlaupinu og hann segir að það sé mikil gleði og mikil spenna meðal þeirra keppenda sem senn hlaupa af stað. 

„Það er gríðarlega gaman að sjá hversu mikill áhugi er fyrir þessu – við stækkum bara og stækkum á hverju ári,“ segir Einar og bætir við að mögulega muni hlaupið færa enn frekar út kvíarnar á næstu árum. 

Keppendur í 161 km vegalengdinni.
Keppendur í 161 km vegalengdinni. Ljósmynd/Hengill Ultra

Fyrstir til að ræsa eru keppendur í 161 km brautinni en 20 íslendingar eru skráðir til leiks í henni. Í kvöld eru svo hlauparar í 106 km brautinni ræstir en þátttakendur í henni eru um það bil 60 talsins.

Á laugardagsmorgun klukkan 08:00 ræsa svo 260 keppendur í 53 km hlaupinu og í hádeginu ræsa rúmlega 600 keppendur og klukkan 14:00 ræsa 10 km og 5 km en um það bil 500 keppendur taka þátt í þeim hlaupum. 

Það geta því flestir fundið hlaup við sitt hæfi að sögn Einars. 

Einar Bárðarson, einn skipuleggjandi hlaupsins, ásamt vöskum þátttakendum hlaupsins í …
Einar Bárðarson, einn skipuleggjandi hlaupsins, ásamt vöskum þátttakendum hlaupsins í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Frábært fyrir Hveragerði

Einar segir við mbl.is að hlaupið sé haldið í góðu samráði við bæjarstjórnina í Hveragerði, þaðan sem hlaupararnir ræsa. Keppendunum 1.300 fylgja gjarnan makar, fjölskyldumeðlimir og þjálfarar, sem þurfa að staldra við í Hveragerði. 

Frá Hengill Ultra í fyrra.
Frá Hengill Ultra í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Er ekki algjör snilld fyrir bæinn að fá svona mikið af fólki sem allt þarf að kaupa puslu og ís í góða veðrinu?

„Jú, algjörlega. Við höfum unnið að þessu í góðu samráði við íbúana hér og yfirvöld í bænum. Okkur hefur verið ótrúlega vel tekið og það er alveg yndislegt að fá að halda þetta hér, líka í öll þessi ár,“ segir Einar, en Hengill Ultra hefur verið haldið síðastliðin 10 ár. 

Frá hlaupinu í fyrra, í Reykjadal ofan Hveragerðis.
Frá hlaupinu í fyrra, í Reykjadal ofan Hveragerðis. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert