„Þetta er mikilvægt skref fyrir okkur á Bíldudal. Gríðarleg vöntun er á íbúðarhúsnæði, bæði til leigu og kaups, og því þurfti nauðsynlega að fara af stað með svona verkefni,“ segir Iða Marsibil Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar.
Fyrirtæki er að hefja byggingu 10 íbúða fjölbýlishúss á Bíldudal. Þrjú tengd félög standa fyrir byggingu íbúðarhússins, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Bæjartún ehf. byggir fjórar íbúðir með stofnframlögum frá ríki og Vesturbyggð. Fjórar íbúðir eru byggðar af Nýjatúni leigufélagi ehf. og tvær eru byggðar af Hrafnshóli ehf. Síðastnefnda félagið hefur viðurkenningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og því geta kaupendur að sinni fyrstu íbúð, þeir sem uppfylla skilyrði, fengið hlutdeildarlán, að því er fram kemur á vef Vesturbyggðar.
Íbúðirnar eru tveggja og þriggja herbergja, 51 og 76 fermetrar að stærð og þeim verður skilað fullbúnum með helstu tækjum í eldhúsi og gólfefnum. Framkvæmdir munu hefjast á næstu vikum. Hluti íbúðanna sem byggðar verða er þegar kominn á sölu.