Smitin innan mjög afmarkaðs hóps

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Smitin sjö sem greindust í gær eru öll innan sama hóps og um mjög afmarkaðan hóp er að ræða. Jafnvel er talið að einhver smitanna séu gömul segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

„Þetta eru smit sem komu upp meðal umsækjenda um alþjóðlega vernd sem búa á afmörkuðum stað á vegum hins opinbera,“ segir Þórólfur. „Hluti af þessum hópi gæti verið með gamalt smit og það er verið að kortleggja það betur,“ segir hann í samtali við mbl.is. 

„Auðvitað vitum við ekki hvort það er meiri útbreiðsla en töluvert var tekið af sýnum frá þessum hópi og það á eftir að taka fleiri sýni og rakning að fara í gang,“ segir Þórólfur. Hann á von á því að það komi í ljós á næstu dögum hvort útbreiðslan er meiri. 

Hann segir að reynt verði að ná utan um þetta hópsmit eins fljótt og auðið er og þetta sé alls ekki hefðbundið smit úti í samfélaginu. Þetta er mun afmarkaðri hópur en þegar blöndunin er meiri líkt og er þegar smit kemur upp í samfélaginu. Svipuð hópsýking kom upp hjá fólki sem hefur sótt hér um alþjóðlega vernd fyrir áramót og gekk fljótt og vel að ná utan um hana á þeim tíma að sögn sóttvarnalæknis.

Staðan góð og undirbýr minnisblað

Þórólfur segir stöðuna á Íslandi mjög góða og bólusetningar eru bæði að ganga vel og virka mjög vel. Þetta er allt samkvæmt áætlun sóttvarnayfirvalda, að aflétta innanlands og vera ekki að herða þrátt fyrir einstaka smit um leið og góð tök eru á landamærunum. Þetta er eftir bókinni og við erum ekki fá mikla útbreiðslu innanlands þrátt fyrir tilslakanir segir hann.

Núgildandi sóttvarnareglur gilda til 16. júní og Þórólfur er byrjaður að skoða framhaldið og mun eftir helgi byrja að vinna að minnisblöðum fyrir heilbrigðisráðherra um breytingar á sóttvarnareglum. 

Miðað við núgildandi takmarkanir er hámarksfjöldi einstaklinga í sama rými eru 150 með ákveðnum takmörkunum, bæði í opinberu rými og í einkarými.

Fjöldatakmörkun og nálægðarmörk taka ekki til barna sem fædd eru 2015 eða síðar. Grímuskylda á ekki við um börn sem fædd eru 2005 og síðar.

Fjöldatakmörkunin gildir ekki um almenningsamgöngur, hópbifreiðar, innanlandsflug, farþegaferjur og störf viðbragðsaðila (s.s. lögreglu, slökkviliðs, hjálparliðs almannavarna og heilbrigðisstarfsfólks). Einnig gildir hún ekki um störf ríkisstjórnar, ríkisráðs, Alþingis, þjóðaröryggisráðs og þegar dómstólar fara með dómsvald sitt.

Á öllum vinnustöðum og í annarri starfsemi þarf að tryggja 2 metra nálægðarmörkin á milli fólks sem er ekki í nánum tengslum.

Í skólastarfi, á sund- og baðstöðum og veitingastöðum og viðburðum þar sem allir gestir sitja í bókuðum sætum gilda 1 metra nálægðarmörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert