Staðfesti dóm yfir framkvæmdastjóra ADHD samtakanna

Landréttur staðfesti í dag dóm yfir fyrrum framkvæmdastjóra ADHD samtakanna.
Landréttur staðfesti í dag dóm yfir fyrrum framkvæmdastjóra ADHD samtakanna. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur staðfesti í dag dóm yfir fyrrum framkvæmdastjóra ADHD samtakanna sem dró að sér 9,2 milljónir króna af fjármunum félagsins og nýtti það í eigin þágu. Maðurinn var dæmdur fyrir fjárdrátt og umboðssvik.

Héraðsdómur Reykjaness hafði dæmt manninn í tíu mánaða fangelsisvist, þar af sjö mánuði skilorðsbundna. Þá þarf hann að greiða ADHD samtökunum 9,2 milljónir ásamt dráttarvöxtum ásamt málskostnaði.

Játaði brotið

Maðurinn, Þröstur Emilsson, var framkvæmdastjóri samtakanna frá 2013 fram á mitt ár 2018 þegar málið kom upp. Var honum þá vikið úr starfi og kærði stjórn félagsins brot hans til lögreglu. Maðurinn játaði brot sitt skýlaust fyrir dómi. 

Ákæruvaldið hafði krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að maðurinn yrði sakfelldur fyrir fjárdrátt, umboðssvik og peningaþvætti. Hann var sakfelldur fyrir fjárdrátt og umboðssvik en ekki fyrir peningaþvætti þar sem það þótti falla undir fyrrnefndu brotin.

Ákæruvaldið áfrýjaði málinu til þess að fá fram endurskoðun á þeirri niðurstöðu. Landsréttur staðfesti eins og áður segir dóm Héraðsdóms. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert