415 skráðir í inntökupróf

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

415 þátttakendur hafa skráð sig í inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði við læknadeild Háskóla Íslands sem fer fram dagana 10. og 11. júní. Það eru 28 þátttakendum færri en í fyrra en svipaður fjöldi og árið 2019.

Alls munu 333 þreyta inntökupróf í læknisfræði og fækkar þeim um ellefu milli ára. Þá sækja 82 um inntöku í sjúkraþjálfunarfræði eða sautján færri en í fyrra. Sama próf er lagt fyrir alla þátttakendur og þeir sem standa sig best á prófinu eiga kost á að hefja nám.

Fjöldi þeirra sem hefja nám miðast við afkastagetu sjúkrahúsanna við verklega þjálfun nemenda. Í læknisfræði verða teknir inn 60 nemendur og 35 nemendur í sjúkraþjálfunarfræði.

Inntökuprófið fer fram í húsnæði Menntaskólans við Hamrahlíð. Það tekur tvo daga líkt og áður og samanstendur af sex tveggja tíma próflotum. Grímuskylda verður á prófstað.

Þess má geta að þeir sem fara í prófið en komast ekki inn í læknadeild geta skráð sig í aðrar deildir Háskóla Íslands fram til 20. júlí að því er segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert