Á pari við píramídana

Gamla torfbænum á Keldum hefur verið vel viðhaldið í áratugi. …
Gamla torfbænum á Keldum hefur verið vel viðhaldið í áratugi. Nú á ríkið alla jörðina í heild sinni. Ljósmynd/Þjóðminjasafnið

Sögujörðin Keldur á Rangárvöllum er nú komin í eigu ríkisins og vörslu Þjóðminjasafns Íslands. Bærinn, sem er einstakar menningarminjar, hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1943, sem hefur tryggt verndun hans. 

Nú er menningarlandslagið í heild sinni í vörslu safnsins sem er mikilvægur áfangi, að sögn Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar.

„Ríkið er búið að kaupa jörðina og skiptir það miklu máli að þjóðin eigi Keldur í heild, menningarminjarnar og umhverfið í kring. Í dag, þegar við erum að varðveita minjar, er náttúran og umhverfið ekki síður hluti af heildinni en sagan,“ segir Margrét.

Græn ferðaþjónusta

Margrét segir kaup ríkisins gera Þjóðminjasafninu kleift að hlúa að samhengi menningarminjanna og náttúrunnar sem þær eru hluti af, sem og byggja upp frekari innviði og bæta aðgengi og þjónustu fyrir ferðamenn.

„Keldur eru með merkustu sögustöðum þjóðarinnar og hluti af ómetanlegum arfi sem torfhúsin eru. Þessi kaup styrkja okkur í þeirri vegferð að varðveita húsin og handverkið og sinna minjavörslu, auk þess að geta hvatt til rannsókna á einstökum arfi torfhúsanna. Það á við um sögu, byggingarlist og handverk, sem er grundvöllur vandaðrar varðveislu. En hlutverk okkar er einnig á sviði ferðaþjónustu. Það skiptir máli að hafa viðeigandi aðgengi að svona stöðum fyrir bæði innlenda og erlenda gesti. Nú þegar við byggjum upp ferðaþjónustu eftir heimsfaraldurinn er mjög mikilvægt að leggja áherslu á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og græna ferðaþjónustu.“

Maður finnur fyrir Sturlungaöldinni

Verið er að leggja niður hefðbundinn búskap á Keldum og segir Margrét að Keldnabændur muni áfram búa á staðnum.

„Við erum búin að halda við þessum húsum um áratugaskeið í góðri samvinnu við Keldnabændur en nú eru fleiri hús undir okkar eigu sem tilheyra heildinni,“ segir Margrét og segir standa til að stækka bílastæði og koma fyrir þjónustumiðstöð í steinsteyptum útihúsum.

Inni í torfbænum er allt eins og það var fyrr …
Inni í torfbænum er allt eins og það var fyrr á öldum. Ljósmynd/Þjóðminjasafnið

Margrét segir byggingarnar á Keldum einstakar menningarminjar í alþjóðlegu samhengi, en húsin eru að grunni til frá miðöldum.

„Maður finnur fyrir Sturlungaöldinni. Torfhús eru í eðli sínu þannig að það þarf að halda þeim við því þau eru byggð úr náttúruefnum úr sínu umhverfi. Þessi efni, rekaviður og torf, voru forsenda þess að hægt væri að búa hér á landi. Það tala margir um torfkofa, sem fer mjög í taugarnar á mér því þetta eru gríðarlega merkileg mannvirki og mikil verkfræði sem býr að baki, auk hugvits og þekkingar. Torfhús eru á pari við píramídana.“

Hugvit og handlagni

Meðal húsa húsasafns Þjóðminjasafnsins eru allir stærstu og merkustu torfbæir landsins og torfkirkjur.

„Þau torfhús sem eru til í dag væru ekki til nema vegna þess að Þjóðminjasafnið hefur varðveitt þau. Þetta eru viðkvæmar minjar ef þeim er ekki haldið við og fjármagnið takmarkað,“ segir Margrét og segir nokkra bæi á bið eftir að verða gerðir upp, til að mynda Hóla í Eyjafirði.

„Það er um hundrað milljón króna verkefni. Við erum að berjast við að fá fjármagn í þennan bæ og fleiri sem bíða. Við þyrftum tvöfalt fjármagn miðað við það sem við fáum,“ segir Margrét og segir marga ráðamenn rugla saman húsafriðunarsjóði, sem einstaklingar geta sótt fjármagn í, og húsasafni Þjóðminjasafnsins.

Það er fallegt um að litast á Keldum.
Það er fallegt um að litast á Keldum. Ljósmynd/Þjóðminjasafnið

„Í húsasafninu hafa fjárveitingar ekki aukist í takt við fjárveitingar í húsafriðunarsjóð,“ segir Margrét og segist gjarnan vilja sjá aukið fé til uppbyggingar torfbæja. 

„Við eigum að vera stolt af þessum arfi og bera virðingu fyrir torfbæjunum. Þeir eru til marks um gríðarlega þrautseigju, hugvit og handlagni Íslendinga.“

Nánar má lesa um Keldur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert