Íbúar á tveimur svæðum greiða í dag atkvæði um sameiningu sveitarfélaga. Annars vegar eru það fjögur sveitarfélög í Austur-Húnavatnssýslu, Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagaströnd, Húnavatnshreppur og Skagabyggð.
Hins vegar eru það Skútustaðahreppur (Mývatnssveit) og Þingeyjarsveit í Suður-Þingeyjarsýslu.
Um 1.880 búa í sveitarfélögunum fjórum í Austur-Húnavatnssýslu sem lagt er til að sameinist. Kosið verður á öllum stöðunum. Á Blönduósi og Skagaströnd stendur kjörfundur frá klukkan 10 til 22 en skemur í Húnavatnshreppi og Skagabyggð. Talning atkvæða fer fram á sömu stöðum og hefst eftir klukkan 22. Úrslit verða birt í hverju sveitarfélagi og á vef sameiningarnefndar, hunvetningur.is. Þess má geta að Blönduósbær býður íbúum upp á akstur á kjörstað.
Íbúar í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi eru samtals liðlega 1.300. Kjörfundir eru í Skjólbrekku og Ljósvetningabúð frá klukkan 10 til 22. Talning hefst strax að loknum kjörfundi. Búist er við að talning taki langan tíma en þegar úrslit liggja fyrir verður bein útsening á Facebook og heimasíðum sveitarfélaganna. helgi@mbl.is