Búi leiðir í 100 mílna hlaupi

Keppendur Salomon Hengil Ultra utanvegahlaupinu hafa hlupið í alla nótt.
Keppendur Salomon Hengil Ultra utanvegahlaupinu hafa hlupið í alla nótt. Ljósmynd Mummi Lú

Búi Steinn Kárason leiðir 100 mílna hlaup í Henglinum en þetta er lengsta hlaup sem keppt hefur verið í á Íslandi. 

Í gær hófst keppni í lengsta og fjölmennasta utanvegahlaupi á Íslandi, Salomon Hengil Ultra í Hveragerði. 

Rúmlega 1.300 keppendur eru skráðir til leiks í allar vegalengdir keppninnar um helgina en Hengill Ultra var fyrst hlaupin árið 2012. 

Þetta er í fyrsta skipti sem keppt er í svo löngu hlaupi hér á landi, 161 km eða 100 mílum, og hófu 16 keppni klukkan 14 í gær. Áður voru keppnisflokkarnir fimm talsins en eru sex í ár.

Nú eru tíu keppendur eftir en meðal þeirra sem hafa þurft að hætta keppni er Sigurjón Ernir Sturluson sem leiddi hlaupið ásamt Búa í gærkvöldi. Von er á fyrstu keppendum í mark á milli 13:30 og 14:30. 

Árni Már Sturluson leiðir 106 km hlaupið, sem var ræst í gærkvöldi. Eygló Traustadóttir leiðir í kvennaflokki. Fáir hafa þurft að hætta keppni í því hlaupi í nótt að sögn Þóris Erlingssonar mótstjóra en alls hófu 46 keppendur hlaupið þegar það var ræst klukkan 20.

Keppendur í 53 km hlaupinu voru ræstir klukkan 8 í …
Keppendur í 53 km hlaupinu voru ræstir klukkan 8 í morgun. Ljósmynd Mummi Lú

Í morgun klukkan átta voru síðan 260 keppendur í 53 km hlaupinu ræstir, klukkan 13 fara rúmlega 600 keppendur af stað í 26 km hlaupið og klukkan 14:00 þeir sem keppa í 10 km og 5 km en um það bil 500 keppendur taka þátt í þeim hlaupum.

Það er léttara yfir í Hveragerði þar sem keppendur leggja af stað í hlaupin en í gær, en uppi á fjalli er meiri vindur en í nótt og í gær.

Lifandi streymi er frá mótinu á facebooksíðu mótsins.

Hlaupið er hluti af Víkingamótaröðinni en henni tilheyra líka KIA-gullhringurinn, sem hjólaður er á Suðurlandi, og Eldslóðin utanvegahlaup og Landsnet MTB-fjallahjólakeppni, sem hvort tveggja fer fram í Heiðmörkinni við borgarmörkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert