„Þess vegna vill Samfylkingin nýja stjórnarskrá með skýru auðlindaákvæði. Og sættir sig við ekkert minna!“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á flokksstjórnarfundi flokksins sem haldinn er á Hilton Reykjavík Nordica sem stendur.
Fundurinn hófst klukkan 13 í dag og er sá fyrsti þar sem flokksmenn Samfylkingarinnar koma saman frá því fyrir heimsfaraldur Covid-19.
Á dagskrá fundarins er meðal annars að samþykkja framboðslista flokksins í öllum kjördæmum fyrir komandi alþingiskosningar í haust.
Yfirskrift fundarins er Lykillinn að framtíðinni og er sjónum sérstaklega beint að vanda og verkefnum á sviði húsnæðis- og fjölskyldumála er kemur fram í tilkynningu.
Logi setti tóninn fyrir komandi kosningabaráttu og varð tíðrætt um misskiptingu auðs og áhrif kórónuveirufaraldursins í því sambandi.
„Og ójöfnuður þrífst víða en sést ekki alltaf utan á fólki. Sú staðreynd að þrítugir íslenskir karlmenn, með lægst menntunarstig, geti vænst þess að lifa nærri fimm árum skemur en best menntuðu kynbræður þeirra ætti að vekja okkur til umhugsunar og hvetja okkur til aðgerða í heilbrigðismálum og að bæta aðstæður fólks víða á vinnumarkaðnum.
Bilið milli menntunarhópa virðist vera að aukast hér á landi þegar lífslíkur eru skoðaðar,“ sagði Logi.
Logi sagði Samfylkinguna vilja hækka greiðslur og draga úr hindrunum og skerðingum fatlaðra og aldraðra.
Þá sagði Logi góðan árangur Íslands í bólusetningum ekki síst Evrópusambandinu að þakka.
„Þess vegna vill Samfylkingin alþjóðasamstarf aftur í öndvegi. Og kveikja að nýju í Evrópuhugsjóninni með því að gefa þjóðinni val um framhald aðildarviðræðna,“ sagði Logi.
Logi sagði mikilvægt að greiða veginn fyrir nýja ríkisstjórn.
„Sem betur fer sjáum við í könnunum möguleika á þess konar stjórn. Stjórn sem Samfylkingin getur haft forgöngu um að mynda. Það má kalla það Reykjavíkurmódelið, R-lista-konseptið eða græna félagshyggjustjórn.
Kæru vinir, það er þannig stjórn sem við skulum mynda eftir kosningarnar í haust, og það eru sterkar líkur á að takist, en það er okkar allra hér inni að sigla því í höfn,“ sagði Logi að lokum og hvatti flokksmenn sína til dáða.