Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar skorar á ríkisstjórnina að grípa til raunverulegra aðgerða í ljósi afhjúpana í Samherjamálinu.
Fundurinn, sem var haldinn á Hilton hóteli Reykjavík í dag, ályktar að framganga Samherja gagnvart kjörnum fulltrúum, stjórnmálamönnum, fjölmiðlafólki og öðrum sem fyrirtækið telur til andstæðinga sinna, sé óafsakanleg.
„Frekar en að gefa út innihaldsrýra afsökunarbeiðni ættu stjórnendur fyrirtækisins að skammast sín fyrir framgöngu starfsfólks sem fylgist með ferðum fjölmiðlafólks, reynir að hafa áhrif á lýðræðislegt val í stjórn Blaðamannafélagsins og á framboðslista hjá stjórnmálaflokkum, og vandar um fyrir ráðherrum og þingmönnum sem nýta stjórnarskrárvarinn rétt sinn á Alþingi,“ segir í ályktuninni.
„Hjá Samherja starfar fjöldi harðduglegs fólks, fyrirtækið hefur skapað mikil verðmæti úr þeim auðlindum sem það hefur öðlast rétt til að nýta og útvegað mörgum störf við veiðar og vinnslu víða um land. Hins vegar skortir fyrirtækið og stjórnendur þess alla auðmýkt gagnvart því að það er þjóðin sjálf sem er eigandi auðlindarinnar sem fyrirtækið hefur fengið að hagnýta,” segir einnig í ályktuninni.
Fram kemur að fundurinn skorar á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að bundin verði í lög vernd fyrir fjölmiðlafólk sem verði fyrir árásum af hálfu stórfyrirtækja og að sams konar lög verði sett um starfsfólk eftirlitsstofnana. Samfylkingin telur einnig löngu tímabært að réttmætt eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni verði bundið í stjórnarskrá.
Ályktunin í heild sinni:
„Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar, haldinn á Hilton Hóteli Reykjavík 5. júní 2021, skorar á ríkisstjórnina að grípa til raunverulegra aðgerða í ljósi afhjúpana í Samherjamálinu.
Fundurinn ályktar að framganga Samherja gagnvart kjörnum fulltrúum, stjórnmálamönnum, fjölmiðlafólki og öðrum sem fyrirtækið telur til andstæðinga sinna, sé óafsakanleg. Frekar en að gefa út innihaldsrýra afsökunarbeiðni ættu stjórnendur fyrirtækisins að skammast sín fyrir framgöngu starfsfólks sem fylgist með ferðum fjölmiðlafólks, reynir að hafa áhrif á lýðræðislegt val í stjórn Blaðamannafélagsins og á framboðslista hjá stjórnmálaflokkum, og vandar um fyrir ráðherrum og þingmönnum sem nýta stjórnarskrárvarinn rétt sinn á Alþingi.
Hjá Samherja starfar fjöldi harðduglegs fólks, fyrirtækið hefur skapað mikil verðmæti úr þeim auðlindum sem það hefur öðlast rétt til að nýta og útvegað mörgum störf við veiðar og vinnslu víða um land. Hins vegar skortir fyrirtækið og stjórnendur þess alla auðmýkt gagnvart því að það er þjóðin sjálf sem er eigandi auðlindarinnar sem fyrirtækið hefur fengið að hagnýta.
Fyrirtæki verða að starfa í sátt við samfélög, fylgja lögum og reglum og greiða fullt gjald til eigandans fyrir nýtinguna. Komi upp grunur um lögbrot af hálfu svo umsvifamikilla fyrirtækja, er nauðsynlegt að tryggja að lögregluyfirvöld, saksóknaraembætti og aðrar eftirlitsstofnanir búi yfir nægilega rúmum fjárheimildum til að geta hafið rannsóknir án atbeina pólitískt kjörinna yfirboðara.
Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar skorar á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að bundin verði í lög vernd fyrir fjölmiðlafólk sem verður fyrir árásum af hálfu stórfyrirtækja. Eins að lög verði sett um að starfsfólk eftirlitsstofnana verði varið fyrir ásókn af því tagi sem beitt hefur verið gagnvart starfsfólki Seðlabanka Íslands.
Ekki síst telur Samfylkingin löngu tímabært að bundið verði í stjórnarskrá réttmætt eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni og kveðið á um að einungis sé hægt að úthluta sameiginlegum gæðum á grundvelli tímabundinna réttinda sem fullt gjald komi fyrir.
Samfylkingin telur nauðsynlegt að við stjórn landsins verði valin ríkisstjórn sem er reiðubúin að standa að sókn gegn sérhagsmunum og að nýting á sameiginlegum auðlindum taki í miklu meira mæli mið af hagsmunum almennings en tíðkast hefur hjá núverandi ríkisstjórnarflokkum.
Ályktunin var samþykkt samhljóða.“