Sumir fá guðsgjafir

Guðrún Ýr Eyfjörð í hlutverki Grímu í sjónvarpsþáttunum Kötlu.
Guðrún Ýr Eyfjörð í hlutverki Grímu í sjónvarpsþáttunum Kötlu. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

„Þetta var rosalega gaman en um leið mjög krefjandi. Sem betur fer hef ég reynslu af því að koma fram og það nýttist mér merkilega vel í þessu verkefni; þau eiga á margan hátt sömu nóturnar, tónlistin og leiklistin. Báðar greinar snúast um að koma tilfinningum á framfæri við áhorfandann eða áheyrandann. Þetta var rosalega lærdómsríkt ferli og heiður og stórkostlega gaman að vinna með Balta. Ég varð mjög leið þegar við kláruðum seinustu tökurnar.“

Þetta segir tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyfjörð, betur Þekkt sem GDRN, um frumraun sína á sviði leiklistar en hún fer með aðalhlutverkið í Kötlu, nýju sjónvarpsþáttunum úr smiðju Baltasars Kormáks en þættirnir átta verða aðgengilegir á alþjóðlegu efnisveitunni Netflix frá og með 17. júní. 

Dóttirin benti á Guðrúnu Ýri

Mikill tími og fyrirhöfn fór í að velja leikara í verkefnið. Eftir að Baltasar prófaði Guðrúnu Ýri kom engin önnur til greina í hlutverk Grímu. „Það var eitthvað svo satt við þessa prufu; einhver tilfinningalegur sannleikur og hráleiki til staðar,“ segir hann.

– Hafðirðu haft augastað á Guðrúnu Ýri lengi?

Baltasar og Guðrún Ýr eru hæstánægð með samstarfið.
Baltasar og Guðrún Ýr eru hæstánægð með samstarfið. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir


„Nei, alls ekki. Sóllilja dóttir mín benti mér á að prófa hana. Ég þekkti auðvitað til Guðrúnar sem tónlistarkonu og fannst týpan áhugaverð en það var ekki fyrr en hún kom til mín í þessa prufu að ég áttaði mig á því hvað leiklistin liggur vel fyrir henni. Sem leikstjóri er maður alltaf með augun opin fyrir nýju fólki og það er alltaf gaman að finna jafn öflugt og hæfileikaríkt fólk og Guðrúnu. Valið á Guðrúnu í þetta hlutverk hefur ekkert með vinsældir hennar sem tónlistarkonu að gera eða að koma henni á framfæri í útlöndum. Það var einfaldlega ekki hægt að líta fram hjá þessum sanna tón.“

Hann vill alls ekki gera lítið úr formlegu námi í leiklist, enda hjálpi það eðli málsins samkvæmt fólki að eflast og ná tökum á listinni, en fleiri leiðir séu þó færar. „Þegar komið er á hólminn vega hæfileikarnir þyngst. Ég er til dæmis ekki að fara að spyrja Idris Elba: Í hvaða skóla gekkst þú, lagsi?“

Þeir eru nú saman við tökur á næstu kvikmynd Baltasars, Beast, í Suður-Afríku. 

Baltasar viðurkennir þó að það sé alltaf áhætta að henda óreyndu fólki út í djúpu laugina; eitt sé að fara á kostum í tíu mínútna prufu og annað að halda upp átta heilum þáttum. Þess vegna vann hann mjög náið með Guðrúnu Ýri meðan á tökuferlinu stóð til að skóla hana til, eins kom Þorsteinn Bachmann að þeirri vinnu en hann fer einnig með stórt hlutverk í Kötlu. „Svo hvatti ég hana líka til að fylgjast vel með sænsku leikkonunni Aliette Opheim, sem leikur í þáttunum, og stúdera hvað hún væri að gera,“ segir Baltasar.

Ég er ekki leikkona!

Guðrún Ýr segir beiðnina um að mæta í prufu fyrir Kötlu hafa komið flatt upp á sig. „Þegar Selma [Björnsdóttir] hringdi og spurði hvort ég vildi koma í prufu voru mín fyrstu viðbrögð á þann veg að ég væri ekki leikkona. Mér finnst hins vegar gaman að ögra mér og gera krefjandi hluti þannig að ég sló til. Þetta var ótrúlega þroskandi reynsla og ég gæti svo sannarlega hugsað mér að gera meira af því að leika. Það er eiginlega alveg 100% öruggt að ég á eftir að gera það.“

– Kom þetta náttúrulega til þín eða fannst þér þú þurfa að hafa fyrir þessu?

„Bæði og. Það voru vissulega ákveðnir veggir sem þurfti að brjóta niður en það urðu vatnaskil þegar Balti benti mér á að fylgjast með Aliette. Allt hélst þetta í hendur. Ég tók þéttar æfingar með bæði Balta og Steina og þegar ég fór að fylgjast markvisst með Aliette þá skildi ég betur hvað þeir voru að fara. Og það var ekki bara hún; ég fór líka að fylgjast betur með öllum hinum leikurunum og þá byrjaði boltinn að rúlla. Það var mikil gæfa að hafa svona færa leikstjóra og leikara allt í kringum mig.“

Gríma er ein af þeim fáu sem enn þá hokra …
Gríma er ein af þeim fáu sem enn þá hokra í Vík eftir að Katla hefur gosið í heilt ár. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir


Liggur algjörlega fyrir henni

Baltasar hefur trú á því að við eigum eftir að sjá mun meira af Guðrúnu Ýri á tjaldinu og skjánum í framtíðinni. „Ef Guðrún vill gera þetta þá liggur það algjörlega fyrir henni. Sumir fá guðsgjafir og hún er ein af þeim. Þetta er ekki frá mér komið,“ segir hann hlæjandi, „ég benti henni bara á það og hjálpaði henni við að slípa sína hæfileika til.“

Sjálf lítur Guðrún Ýr fráleitt svo á að hún sé fullnuma í leiklist eftir þetta eina verkefni. „Þumalputtareglan er sú að haldi maður að maður sé búinn að læra allt þá er maður á röngum stað í lífinu. Ég mun því halda áfram að læra og freista þess að bæta mig, bæði í leiklist og öðru sem ég tek mér fyrir hendur.“

– Og varla ertu hætt í tónlistinni?

„Nei, síður en svo. Ég held að það verði mjög gaman og gott að tvinna þetta tvennt saman, tónlistina og leiklistina.“

Nánar er rætt við Baltasar og Guðrúnu Ýri í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert