Aðild Hafþórs að bitcoin-þjófnaði fyrir Hæstarétt

Hæstiréttur tekur fyrir aðild Hafþórs Loga Hlynssonar að stórfelldum þjófnaði …
Hæstiréttur tekur fyrir aðild Hafþórs Loga Hlynssonar að stórfelldum þjófnaði á tölvubúnaði, sem notaður var til að grafa eftir bitcoin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur hefur orðið við málskotsbeiðni Hafþórs Loga Hlynssonar, sem sakfelldur var í Landsrétti fyrir að hafa hagnast á margvíslegum brotum. Hæstiréttur mun því taka málið fyrir. 

Hafþór Logi var sakfelldur fyrir aðild sína að stórfelldum þjófnaði á tölvum, sem notaðar voru til að grafa eftir rafmyntinni bitcoin. Tölvunum var stolið bæði úr gagnaverum á Suðurnesjum og Borgartúni. 

Í ákvörðun Hæstaréttar segir:

„Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir peningaþvætti samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017 aflað sér ávinnings með refsiverðum brotum. Í dómi Landsréttar kom fram að leyfisbeiðandi hefði ekki gefið trúverðugar skýringar á misræmi í útstreymi fjár af reikningum sínum og skráðum tekjum á sama tímabili. Þá hefði leyfisbeiðandi verið sakfelldur í tveimur sakamálum á árunum 2017 og 2018 sem lutu meðal annars að fíkniefnalagabrotum og innflutningi fíkniefna til söludreifingar. Þannig hefðu brot hans verið til þess fallin að hafa í för með sér verulegan fjárhagslegan ávinning.“

Þá segir einnig að ákæruvaldið leggist ekki gegn málskotsbeiðni Hafþórs vegna þess að það telur að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu. Með málinu reyni á túlkun 69. greinar almennra hegningarlaga í fyrsta skipti auk þess sem reyni á frekari túlkun 264. greinar sömu laga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka