Halldór Ingi Andrésson, sem rak um árabil Plötubúðina á Laugavegi, lést 4. júní eftir baráttu við krabbamein.
Halldór fæddist á Selfossi 22. apríl 1954. Foreldrar hans voru Aðalheiður Guðrún Elíasdóttir húsfreyja og handavinnukennari og Andrés Hallmundarson smiður. Halldór bjó fyrstu æviárin á Lambastöðum í Árnessýslu og á Selfossi. Árið 1960 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur þar sem hann bjó til ársins 1987 en þá flutti hann á Seltjarnarnes þar sem hann bjó til æviloka.
Halldór stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík og lauk síðar námi við löggildingu fasteignasala hjá Háskóla Íslands.
Halldór var alla tíð mikill tónlistargrúskari. Árið 1975 fór hann að skrifa um tónlist, fyrst í Þjóðviljann, síðan Vísi, Vikuna og í Morgunblaðið þar til hann gerðist útgáfustjóri hjá Fálkanum 1981. Árið 1983 opnaði Halldór Plötubúðina á Laugaveginum en búðina rak hann um árabil. Síðar vann hann sem verslunarstjóri hjá Japis og Virgin Megastore í Kringlunni. Þá var Halldór umsjónarmaður þáttarins Plötuskápsins á RÚV og hélt úti vefsíðunni Plötudómum þar sem hann skrifaði um bæði plötur og tónlist. Þá var Halldór formaður unglingaráðs handboltadeildar Gróttu um árabil.
Síðustu árin starfaði Halldór sem löggiltur fasteignasali og opnaði að lokum sína eigin fasteignasölu, Fasteignaland.
Eftirlifandi eiginkona Halldórs er Hafdís Ósk Kolbeinsdóttir, fjármálastjóri hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Börn þeirra eru Guðný Þorsteinsdóttir, grunnskólakennari og námsefnishöfundur, f. 1973, og Anna María Halldórsdóttir, f. 1985, teymisstjóri hjá QC Bioassay hjá Alvotech. Börn Guðnýjar eru Friðbert Þór Ólafsson, Kolbeinn Ingi Friðriksson og Eydís Magnea Friðriksdóttir. Börn Önnu eru Ólafur Hrafn Johnson og Halldóra Guðrún Johnson.