„Núverandi ríkisstjórn hefur ekki reynst vel,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins í eldhúsdagaumræðum Alþingis.
Sigmundur segir tímabært að hefja aftur alvöru stjórnmálaumræðu nú þegar náðst hefur góður árangur í baráttunni við Covid. Hann segir að tveir stjórnarflokkanna hafi ítrekað hafnað eigin stefnu og jafnvel grunngildum flokkanna.
Hann kallaði ríkisstjórnina kerfisstjórn og hagsmunabandalag sem hafi átt sína bestu daga í skjóli faraldursins.
Sigmundur segir heilbrigðiskerfið í sannkallaðri krísu, biðlistar lengist og fólk sé sent til útlanda í aðgerðir sem hefði kostað þrefalt minna að framkvæma á Íslandi hjá sams konar stofnunum. Þá nefndi hann sérstaklega lokun Domus Medica sem vott um þær aðstæður sem ríkisstjórnin hefur búið starfseminni. Hjúkrunarheimili séu fjársvelt og frjáls félagasamtök á borð við SÁÁ og Krabbameinsfélagið virðist ekki velkomin í heilbrigðiskerfið sem hann kallar „hið nýja marxíska heilbrigðiskerfi.“
Sigmundur gagnrýndi einnig harðlega þá áætlun ríkisstjórnarinnar að lögleiða eiturlyf. Hann kallaði þetta réttrúnaðarmál ríkisstjórnarinnar og segir þetta gjöf til glæpagengja Íslendinga, sama ætti við um nýja löggjöf hælisleitenda.
Sigmundur sagði að samgöngumálum hafi verið stjórnað af borgarstjórninni í Reykjavík, það sjáist best á kröfunni um að Reykjavíkurflugvöllur skuli fara. Ríkisstjórnin hafi fallist á að fjármagna það verkefni fyrir Samfylkinguna af óskiljanlegum ástæðum.
Stór hluti drengja í grunnskólum geta ekki lesið sér til gagns, eldri borgarar vanræktir og þeir sem reiði sig á greiðslur almannatryggingakerfisins hafi þurft að þola ósanngjarnar og óhagkvæmar skerðingar.
Sigmundur sagði að mikilvægt að skoða með hvaða hætti við nálgumst EES samninginn og Schengen samstarfið. Að mati Sigmundar verður Alþingi að hafna nýju ritskoðunarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar og ESB.
Ræðunni lauk Sigmundur með eftirfarandi orðum: „Eftir 15 mánuði án stjórnmála þurfum við nú að taka afstöðu til þess hvernig við byggjum upp samfélagið til framtíðar. Í því efni er Miðflokkurinn með lausnirnar“