Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid kona hans fara í opinbera heimsókn í Ölfus í dag.
Heimsóknin hefst í Herdísarvík klukkan 10 þar sem bæjarstjóri Ölfuss, Elliði Vignisson, og Gestur Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar taka á móti forsetahjónunum. Því næst verða fiskeldisstöðvar Laxa og Landeldis heimsóttar. Þegar komið er í Þorlákshöfn verða Guðni og Eliza viðstödd vorhátíð grunnskóla bæjarins.
Eftir hádegi heimsækja forsetahjónin hafnarskrifstofur Þorlákshafnar þar sem kynnt verða framtíðaráform um stækkun hafnarinnar. Að því loknu verður dagdvöl eldri borgara við Egilsbraut heimsótt. Forsetahjónin kynna sér starfið þar, þiggja kaffi og spjalla við viðstadda, sem margir eru frumbyggjar í bæjarfélaginu.
Síðasti viðkomustaður forsetahjónanna í heimsókn þessari er Hjallakirkja í Ölfusi, sögufrægur staður skammt frá Þorlákshöfn. Formaður sóknarnefndar, Hjörleifur Brynjólfsson, tekur á móti gestunum og segir frá staðnum.