Höskuldur Daði Magnússon
„Þetta verður áhugavert mót fyrir margra hluta sakir og ég get ekki neitað því að ég er orðinn spenntur,“ segir Guðmundur Benediktsson, knattspyrnusérfræðingur og sjónvarpsmaður. Evrópumótið í knattspyrnu karla hefst á föstudaginn.
Mótinu var frestað í fyrrasumar vegna kórónuveirunnar og veiran sú setur talsverðan svip á mótið. Takmarkaður fjöldi áhorfenda verður til að mynda leyfður á leikjum og ýmsar varúðarráðstafanir hafa verið undirbúnar ef smit koma upp.
Mótið verður haldið í ellefu löndum í álfunni og því er stemningin nokkuð önnur en fólk á að venjast. Við Íslendingar verðum því miður að sætta okkur við að vera ekki á meðal þátttökuþjóða. Það kemur þó ekki í veg fyrir að mótið verði veisla fyrir knattspyrnuáhugafólk og vel þess virði að setja sig í stellingar. Þannig eru margir þegar búnir að festa kaup á treyjum með sínum uppáhaldsliðum og búast má við að þétt verði setið á börum yfir stærstu leikjunum.
„Þetta hefur verið að aukast hægt og rólega að undanförnu og sérstaklega í síðustu viku,“ segir Benedikt Bjarkason, verslunarstjóri í Jóa útherja í Ármúla, þar sem mikið úrval er af landsliðstreyjum liðanna á EM, að því er fram kemur í umfjöllun um EM í Morgunblaðinu í dag.