„Hvað varðar hagsmuni landbúnaðarins teljum við okkur geta unnið með þennan viðskiptasamning, svona við fyrstu sýn,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Fyrir helgina var nýr fríverslunarsamningur milli Íslands og Bretlands, vegna útgöngu Breta úr ESB, staðfestur. Viðskiptakjör landanna verða að mestu leyti hin sömu og var innan ESB, svo sem að iðnaðarvörur verða áfram tollfrjálsar. Hvað landbúnaðarvörur áhrærir fær Ísland meira svigrúm.
Margvísleg tækifæri verða til aukins útflutnings á lambakjöti og skyri með tollfrjálsum innflutningskvótum. Þeir nema 692 tonnum fyrir lambakjöt og 329 tonnum í skyri, segir í kynningu utanríkisráðuneytisins. Þar er staðhæft að ráðstöfun þessi stækki Evrópumarkað fyrir íslenskar landbúnaðarfurðir verulega – án þess að aðrar þjóðir fái meiri möguleika til innflutnings hingað. Ísland muni veita Bretlandi tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir 19 tonnum af osti og 18,3 tonnum af unnum kjötvörum. Þá er bent á að í samningnum séu ákvæði um endurskoðun sem gefi Íslandi tækifæri til að sækja á um betri kjör.
„Á fundi sem við áttum með fulltrúum ráðuneytisins heyrðum við aðrar og hærri tölur um leyfilegan innflutning. Okkar áhyggjur sneru m.a. að því að þegar Bretland ætti ekki hlutdeild í nýtingu innflutningskvóta ESB yrði hann nýttur af öðrum aðildarríkjum. Töldum samninginn ekki þjóna hagsmunum Íslendinga en nú hefur annað komið á daginn,“ segir Gunnar í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.