Skoða nýjar gönguleiðir að gosinu

Verið er að skoða nýjar gönguleiðir upp að eldgosinu í Geldingadölum, segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Hraun flæddi yfir svokallaðan Gónhól á föstudag. Ólafur Þórisson tók drónamyndir af svæðinu um helgina.

Að sögn Rögnvalds voru viðbragðsaðilar viðbúnir því að hraun tæki að renna yfir hólinn og því hafi lögreglan tekið ákvörðun um að loka svæðinu nokkrum dögum áður.

„Hraunið fór að renna þarna yfir þar sem farið er upp á svokallaðan Gónhól. Þannig það er búið að færa hann. Það eru semsagt tvær hæðir sem eru næst gosinu og hæðin sem er nær gosinu er orðinn óbrennishólmi,“ segir Rögnvaldur.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. mbl.is/Sigurður Bogi

Áhuginn breytist væntanlega ekki

Með óbrennishólma eða óbrinnishólma er átt við svæði sem hraun rennur ekki yfir, með öðrum orðum svæði sem ekki brennur.

Rögnvaldur útilokar ekki þann möguleika að hraunflæði loki alfarið gönguleið A og segir það í raun bara tímaspursmál hvenær það mun gerast. Þá sé verið að skoða nýjar gönguleiðir.

„Áhugi fólks er mikill á að fara þarna og það mun væntanlega ekkert breytast þó hraun fari að renna yfir göngustíginn. Það er ekkert búið að ákveða en þeir eru að skoða þarna suður frá hvaða möguleikar eru í stöðunni.“

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Gasmengun minnkað

Minni gasmengun er á svæðinu í dag miðað við síðustu tvo daga, samkvæmt upplýsingum frá Salóme Jórunni Bernharðsdóttur, náttúruvásérfræðings á Veðurstofu Íslands. 

„Það eru ekki að mælast jafn há gildi á þessum gasmælum sem eru við gosstöðvarnar eins og var að mælast. Þau hafa lækkað svolítið. Það er líklegast bara breytt vindátt eða aukinn vindstyrkur sem orsakar þessa lækkun,“ segir hún.

Það hefur einhvern veginn þannig áhrif á að gasið þynnist út í loftinu. Gasið í dag mælist að meðaltali rétt undir 1000 míkrógrömmum á rúmmetrann og tekur nokkra toppa svona aðeins ofar. Þetta er ekki eins hátt og þetta var í gær en þá voru topparnir að ná allt undir 4500 míkrógrömm á rúmmetrann. Það segir ekki alla söguna hvort að topparnir séu háir því það er bara þannig að mælarnir eru fastir á einum stað en gasið dreifist um.

Varhugavert að treysta alfarið á gasmælana

Salóme segir varhugavert að treysta alfarið á gasmælana og að enn sé ástæða til að gæta varúðar þó gildin mælist lág.

„Þó það mælist ekki alltaf þannig að þá er alltaf hætta á gasmengun. Gasið dreifist um allt svæðið og fólk stendur sjaldnast kyrrt við hliðina á gasmæli allan tímann sem það er þarna. Það verður því að hafa skynsemina að leiðarljósi, fylgjast með því hvort viðbragðsaðilar telja óhætt að ganga gönguleiðina og halda sig til hlés ef það finnur fyrir einhverjum einkennum gaseitrunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert