Listaverkið Veðurhorfur eftir Sólrúnu Halldórsdóttur var afhjúpað í Grundarfirði sl. laugardag. Verkið, sem stendur nærri kirkjunni í byggðarlaginu, byggist á 112 íslenskum orðum um vind og veður.
Það var fyrst sett upp sumarið 2019 í tengslum við listsýningu sem þá var á Snæfellsnesi, sem tekin var niður í sumarlok. Nú hefur þetta verk Sólrúnar verið sett upp varanlega. Undirstöðurnar eru grjót og ofan í það borað fyrir festingum á 112 vönduðum tréplötum, einni fyrir hvert orð.
Sem dæmi um orð sem koma fyrir í listaverki Sólrúnar og lýsa vindi eru gjörningaveður, stórisunnan og remba. Svo mætti lengi áfram telja. „Fólk úti á landi, sérstaklega í sjávarbyggðum, er alltaf mjög háð veðri og vindum í lífsbaráttu sinni og starfi. Hugmyndin að verkinu kom í tengslum við Dag íslenskrar tungu þegar ég frétti að til væru 130 orð tengd vindi. Frásagnir af því komu mér af stað,“ segir Sólrún, sem er úr Grundarfirði og hefur lengi starfað sem listamaður. sbs@mbl.is